Tillögu Sjálfstæðisflokks vísað frá

mbl.is/Kristinn Magnússon

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fá utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á framkvæmd við braggann frá á fundi sínum sem stóð fram yfir miðnætti. Alls greiddu 12 atkvæði með því að vísa tillögunni frá, tíu voru á móti og einn borgarfulltrúi sat hjá.

Hér er hægt að horfa á borgarstjórnarfundinn frá því í gær.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins:

„Borgarstjórn samþykkir að fallið verði frá því að innri endurskoðun geri heildarúttekt á bragganum. Þess í stað verði utanaðkomandi aðila falið að gera úttektina. Í ljósi þeirra miklu anna sem eru hjá innri endurskoðanda vegna sérstakrar úttektar á Orkuveitu Reykjavíkur gæti það tafið fyrir rannsókn og úttekt á endurgerð braggans. Með því að fela utanaðkomandi aðila úttektina yrði rannsókn málsins auk þess hafin yfir allan vafa. Við rannsókn á málinu skal enginn angi málsins undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Enn fremur athafnir og athafnaleysi framkvæmdastjóra borgarinnar.“

Greinargerð:

Eðlilegast væri að fela utanaðkomandi aðila úttekt í þessu máli, enda er innri endurskoðun störfum hlaðin. Innri endurskoðun var falin umfangsmikil úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum hennar. Það er mikilvægt að úttekt á braggamálinu bitni ekki á Orkuveitu úttektinni. Þá er braggamálið þess eðlis að mikilvægt er að fá niðurstöðu í úttekt þess sem fyrst og hún sé hafin yfir allan vafa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert