Umskurður drengja ekki bannaður í íslenskum lögum

Ekkert ákvæði í íslenskum lögum fjallar um umskurð á kynfærum …
Ekkert ákvæði í íslenskum lögum fjallar um umskurð á kynfærum drengja, sem fyrir vikið er hvorki bannaður né heimilaður.

Umskurður drengja er ekki bannaður samkvæmt íslenskum lögum og óvíst að umskurður geti fallið undir almenn hegningarlög. Þetta kemur fram í skriflegum svörum Sigríðar Á. Andersen dómsmálráðherra við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Silja Dögg spurði ráðherra hvort heimilt sé að framkvæma umskurð á kynfærum drengja ef ekki liggi fyrir læknisfræðilegar ástæður. Sagði í svörum ráðherra að ekkert ákvæði í íslenskum lögum fjalli beinlínis um umskurð á kynfærum drengja og af því leiði að aðgerðir af því tagi séu hvorki sérstaklega heimilaðar né bannaðar. Þá sé ráðherra ekki kunnugt um að reynt hafi á það fyrir íslenskum dómstólum hvort slíkar aðgerðir samræmist íslenskum lögum. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/09/18/vill_eyda_lagalegri_ovissu/

Silja spurði einnig hvort ráðherra teldi þess vert að láta skoða hvort umskurður drengja geti verið refsiverður samkvæmt almennri refsilöggjöf. Ráðherra svaraði því til að hún telji „alls óvíst“ að svo sé. Með lagabreytingu sem var gerð 2005 hafi verið sett inn í hegningarlög ákvæði þar sem umskurði á kynfærum kvenna sé jafnað við refsiverða líkamsárás, en lagabreytingin hafi verið þingmannamál og því ekki fylgt lagatæknilegur rökstuðningur. Því kunni svo að fara að  hegningarlögin verði framvegis túlkuð þannig að þau nái ekki yfir umskurð, hvorki drengja né stúlkna.

„Í þessu sambandi varð áhugaverð þróun á löggjöf í Þýskalandi árið 2012 þegar sett var inn í löggjöf nýtt ákvæði sem heimilaði umskurð drengja. Fram að þeim tíma höfðu dómstólar ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja væri ólögmæt líkamsárás. Þrátt fyrir setningu þessara laga hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja án samráðs við þá kunni að teljast líkamsárás og réttur þeirra til sjálfsákvörðunar gangi framar trú foreldranna, einkum því eldri sem börnin eru. Íslenskir dómstólar hafa ekki enn fjallað um mál af þessum toga en endanlegt mat á lögmæti umskurðar á kynfærum drengja liggur hjá þeim,“ sagði í svörum ráðherra. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/17/a_ekki_heima_i_refsiloggjofinni/

Undanfarin ár hafi umræða um umskurð og mannréttindi aukist verulega. Málið hafi þó enn ekki komið til kasta Mannréttindadómstóls Evrópu svo kunnugt sé, né heldur hafi eftirlitsnefndir sem starfa á grundvelli mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna komist að þeirri niðurstöðu að umskurður drengja teljist brot á mannréttindum þeirra. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi engu að síður lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þeim áhrifum sem umskurður kunni að hafa á drengi og hvatt til þess að þessi mál verði skoðuð frekar.

„Þá hafa umboðsmenn barna og ýmsir heilbrigðisstarfsmenn á Norðurlöndum gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur það álit að umskurður ungra drengja feli í sér brot á réttindum barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“ 

Ráðherra kveðst því ætla að halda áfram að fylgjast með umræðunni. „Mikilvægt er að það álitaefni hvort og þá hvenær foreldrar geta tekið ákvörðun um ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama barna sé skoðað heildstætt út frá réttindum og hagsmunum barna. Á það ekki einungis við um umskurð drengja af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum heldur einnig aðgerðir á ungbörnum með ódæmigerð kyneinkenni og aðrar ónauðsynlegar aðgerðir á kynfærum barna. Þau mál eru nú þegar til skoðunar innan velferðarráðuneytisins í tengslum við frumvarp um kynrænt sjálfræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert