Dregur framboð til baka

Jakob S. Jónsson.
Jakob S. Jónsson. Af vef Neytendasamtakanna

Jakob S. Jónsson hefur ákveðið að draga framboð sitt til formanns Neytendasamtakanna til baka af persónulegum ástæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hann hefur sent frá sér.

„Að gefnu tilefni vil ég, Jakob S. Jónsson, tilkynna að ég dreg framboð mitt til formanns Neytendasamtakanna, til baka af persónulegum ástæðum.

Fyrir allnokkru var skorað á mig að gefa kost á mér til framboðs formanns Neytedasamtakanna og ákvað ég að verða við þeirri áskorun enda fann ég mikinn og víðtækan stuðning við framboð mitt. Neytendamál hafa lengi verið áhugamál mitt og ég sá fyrir mér að gaman yrði að vinna þeim málaflokki framgang í hlutverki formanns öflugra neytendasamtaka.

Nú hafa þó veður skyndilega skipast þannig í lofti að ég sé þann einn kostinn í stöðunni að draga framboð mitt tilbaka og er það vissulega gert með eftirsjá en af óhjákvæmilegri nauðsyn.

Stuðningsmönnum mínum þakka ég af heilum hug alla uppörvun og hvatningu og minni á að ávallt er þörf á að stuðla að framgangi málefna neytenda. Af nógu er að taka og miklu skiptir að þar standi öflugt lið jafnt í forystu sem og bakvarðarsveit.

Neytendasamtökunum óska ég alls góðs í framtíðinni. Nýrri stjórn óska ég að henni takist að gera Neytendasamtökin að fjölda- og baráttusamtökum neytenda á Íslandi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka