Einmana og félagslega einangruð

Árni Páll Árnason hefur unnið skýrslu fyrir norrænu ráðherranefndina þar …
Árni Páll Árnason hefur unnið skýrslu fyrir norrænu ráðherranefndina þar sem er að finna tillögur um aukið norrænt samstarf á sviði félagsmála. mbl.is/Árni Sæberg

Öll Norðurlöndin búa við skipulagslega veikleika þegar kemur að því að taka á flóknum samfélagslegum áskorunum, sem krefjast samræmdra aðgerða ólíkra fagsviða, hvort sem í hlut eiga heilbrigðismálin, vinnumarkaðurinn, menntakerfið eða húsnæðismálin, segir Árni Páll Árnason, fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra, sem hefur unnið skýrslu um norræna velferð fyrir norrænu ráðherranefndina. 

Margar af erfiðustu félagslegu áskorununum sem við stöndum nú frammi fyrir stafa af margþættum orsökum. Við sjáum félagslega einangrun og einmanaleika í stórauknu mæli í samfélaginu öllu – frá barnæsku til efri ára. Við sjáum dæmi þess að félagslegt misrétti og félagsleg einangrun erfist milli kynslóða, segir í skýrslunni.

Skortir samstillingu og fókus

Að sögn Árna Páls skortir samstillingu og fókus þegar kemur að flóknum úrlausnarmálum. Norrænu velferðarkerfin geri mjög vel í einfaldari málum, það er ef vandamálið sem þarf að leysa er einangrað. Annað er uppi á teningnum ef um samsettan vanda er að ræða. Þegar finna þarf lausnir sem henta hverjum og einum og fyrirframgefnar lausnir eru ekki til staðar.

„Mér finnst það sláandi hvernig við höfum sætt okkur við að einhverjir hlutir séu félagslegt vandamál og að það sé á ábyrgð velferðarkerfisins að leysa þau,” segir Árni Páll.

„Ef heilbrigðis-, mennta-, húsnæðis- og vinnumarkaðskerfi okkar virkuðu eins og þau ættu að gera þá væri við færri áskoranir í félagsmálum að etja. Stofnanir á þessum sviðum hafa oft ekki nægan fjárhagslegan hvata til að bjóða sérhannaðan stuðning.

Ef við tökum skólakerfið sem dæmi þá kostar það skólann ekkert ef einstaklingur, sem þarf á mikilli aðstoð og stuðningi að halda, dettur út úr skólakerfinu. Heldur sparar skólinn fjármagn. En kostnaðurinn hverfur ekki. Alveg eins og þegar atvinnulaus maður telst ekki lengur vinnufær og færist af atvinnuleysisbótum á örorkubætur þá sparar það atvinnuleysistryggingakerfinu bótagreiðslur en kostnaðurinn hverfur heldur ekki hér.

Þetta er eitthvað sem þarf að bæta og þróa í samstarfi við fjármálaráðuneyti ríkjanna. Til að mynda ætti það að vera hlutverk framhaldsskólans að koma að vinnu við að finna lausnir fyrir nemendur sem falla úr námi. Að finna lausnir fyrir nemanda sem þarf á aðstoð að halda í stað þess að félagskerfið sitji eftir með vandamálið og önnur kerfi taki bara þátt í að leysa vandann ef áhugi er fyrir hendi af þeirra hálfu.

Þetta er almennur vandi á öllum Norðurlöndunum og margt sem ríkið getur gert. Stóru áskoranirnar á sviði félagsmála í dag eru óhamingjusöm börn, ungt fólk sem finnur ekki fótfestu í námi, jaðarsett fólk á miðjum aldri, gjarnar karlar sem búa við skort á félagslegum samböndum og aldrað fólk sem býr við félagslega einangrun. Í fáum orðum sagt: Einsemd og skortur á félagslegu tengslaneti,” segir Árni Páll.

Mikilvægt að nýta sveigjanleika frjálsra félagasamtaka

Hann segir að ríkið geti gert margt á sviði velferðarmála en eins sé mikilvægt að nýta sveigjanleika frjálsra félagasamtaka því margar af erfiðustu félagslegu áskorununum, sem við stöndum nú frammi fyrir, stafa af margþættum orsökum. Stjórnvöld séu ekki rétti aðilinn til þess að leysa vandamál tengd félagslegri einangrun og einmanaleika. Mikilvægt sé að þróa og efla ólík félagsleg tengslanet.

Mörg félagasamtök brúa bilið á milli hins opinbera og notandans og í raun eðlilegra, að sögn Árna Páls, að þau búi til sérhæfðar lausnir fyrir hvern og einn fremur en ríkið. Enda getur verið snúið að réttlæta það, á sama tíma og stjórnsýslulög gilda og reglur um jafna meðferð allra, að einn fái meiri þjónustu en annar á vegum þess opinbera.

Mörg frjáls félagasamtök eiga auðveldara með að bjóða upp á einstaklingsbundnar lausnir en hið opinbera, þar sem þau búa yfir meiri sveigjanleika. Þegar horft er til stærstu félagslegu áskorana samtímans, dylst engum hversu fyrirferðarmikil einmanaleiki, skortur á tengslaneti og skortur á fyrirmyndum eru sem viðfangsefni.

„Það eru margir kostir við félagslega þjónustu af hálfu hins opinbera en hún dugar ekki til að skapa félagsleg tengslanet og persónuleg sambönd. Því þarf að vinna á kerfisbundinn hátt að því að efla öll félagsleg tengslanet í samfélagi okkar: Fjölskyldu, vinasambönd, jafningjastuðning, nágrannasamfélag og frjáls félagasamtök,“ segir í skýrslunni, Þekking sem nýtist.

Vinna þarf að því á kerfisbundinn hátt að að efla …
Vinna þarf að því á kerfisbundinn hátt að að efla félagsleg tengslanet. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Árni Páll bendir á, máli sínu til stuðnings, fjölmörg slík verkefni sem unnin eru á Norðurlöndunum og til þess að geta lært hvert af öðru leggur hann til upplýsingaskipti milli norrænu ríkjanna þar sem bestu dæmin eru tekin saman þannig að önnur ríki geti lært af öðrum.

„Í öllu falli á að setja fókus á að byggja upp félagslegt net í kringum hvern einstakling og við munum aldrei leysa þessi viðfangsefni nema með sterku félagslegu neti þar sem allir skipta máli.”

Aðgerðaleysi leiðir oft til versnandi geðheilsu

Í skýrslunni er tekið dæmi um unga manneskju sem er hvorki í vinnu né námi. Aðgerðaleysi leiðir oft til versnandi geðheilsu eða vímuefnaneyslu. Það getur síðan leitt til húsnæðisvanda og torveldað enn frekar lausn á aðstæðum þess heimilislausa.

Hvar eigum við að hefjast handa? Getum við boðið vímuefnameðferð án nægilegs einstaklingsbundins stuðnings og vonar um hentuga menntun, sem skapar færni og síðar meir atvinnu? Og hvenær á að taka á húsnæðismálunum? Er hægt að vænta þess að heimilislaus einstaklingur hætti í neyslu ef ekki eru horfur á húsnæði, atvinnu eða námi sem hentar?

„Svona mál eru erfið úrlausnar á öllum Norðurlöndunum. Það er meðal annars vegna þess að allir hlutaðeigandi verða að taka mið af fjárhagsáætlunum til skamms tíma og standast árangursmat til skamms tíma, þó svo að langtímahugsun og heildstæðari lausnir fyrir hvern og einn gætu leitt til betri niðurstöðu. En ef ekki tekst að ná árangri getur það eins og alkunna er haft mjög mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið, ef það leiðir til frekari geðrænnar og líkamlegrar vanheilsu, kallar á fjárhagslegan stuðning út æviskeið einstaklingsins og samfélagið verður af skatttekjum. Vandinn magnast enn frekar þegar tekið er með í reikninginn að líkur eru á að slíkar áskoranir gangi í arf til næstu kynslóðar.

Greina má nú aukna áherslu á að félagsleg þjónusta taki meira mið en áður af notandanum og óskum hans og sjónarmiðum. Á undanförnum áratugum hafa til dæmis orðið mjög miklar framfarir þegar kemur að þjónustu við einstaklinga með fötlun og í dag dytti engum í hug að bjóða notendum með fötlun að hafa jafnlítil áhrif á þjónustu og aðstoð og alsiða var fyrir 30 árum síðan.

En þótt við höfum náð langt, getum við gert enn betur við að auka áhrif annarra notenda, til dæmis aldraðra, barna, heimilislausra og ungs fólks sem hvorki er í skóla né vinnu.

Í þessu sambandi gegna frjáls félagasamtök á félagsmálasviðinu mikilvægu hlutverki. Mörg góð dæmi má finna um að frjáls félagasamtök veiti mikilvæga félagslega aðstoð á sveigjanlegan og einstaklingsbundinn hátt. Slík samtök geta betur en opinberar stofnanir nýtt og byggt upp félagsleg tengslanet og geta oft í enn meira mæli boðið fram lausnir sem eru sniðnar að þörfum hvers og eins. Skýr áhersla á notandann er mikilvæg forsenda þess að félagslegar lausnir mæti þörfum og væntingum einstaklingsins, auk þess sem það skiptir höfuðmáli út frá mannréttindasjónarhóli,” segir í skýrslunni.

Tvær hliðar samfélagsmiðlabyltingar

Árni Páll segir að hér séu mörg verkefni þar sem almenningur getur tekið þátt. Hann tekur samfélagsmiðlabyltinguna sem dæmi en hún eigi sér tvær hliðar; annars vegar auki hún einsemd, líkt og oft er talað um, en á hinn bóginn skapi hún áður óþekkt tækifæri fyrir fólk að leggja sitt af mörkum. Að láta í sér heyra og tengjast út fyrir landamæri. Víða sé að finna áhugaverð slík verkefni, ekki síst í Danmörku þar sem áhersla hefur verið lögð á hlutdeild almennings í að nýta tækifæri sem eru fyrir hendi án þess hið opinbera komi að því.

„Við eigum að nýta og þakka fyrir frumkvæði fólks á þessu sviði og vinna saman. Þegar kemur að frjálsum félagasamtökum og þeirra hlutverki þá verðum við að horfa á til lengri tíma og ekki ætlast til þess að öll orkan fari í gerð framvinduskýrslna heldur gera raunhæfar kröfur um árangur. Við erum ekki að tala um háar fjárhæðir og bara það að virkja fólk skiptir máli. Eðlilega þarf að fylgjast með gæðum þjónustunnar sem verið er að greiða fyrir en ekki láta orku verkefnisins fara í skýrsluskil heldur í að bæta þá þjónustu sem veitt er,” segir Árni Páll.

Norrænu nýsköpunarverðlaunin

Eitt af því sem nefnt er í skýrslunni er að komið verði á fót norrænum verðlaunum fyrir félagslega nýsköpun, til dæmis í samstarfi við Norðurlandaráð um stofnun félagslegra nýsköpunarverðlauna, sem veitt verði árlega ásamt öðrum verðlaunum Norðurlandaráðs fyrir bókmenntir, tónlist, kvikmyndir og umhverfismál. Verðlaunin eiga að: skapa vettvang fyrir sveitarfélög og aðra þjónustuveitendur á félagslega sviðinu á Norðurlöndum, þar sem tækifæri gefst til að kynnast bestu lausnum sem hafa verið þróaðar og nýta þær sem innblástur.

Árni Páll segir að með þessu geti skapast gríðarlega mörg tækifæri. Að læra hvert af öðru og deila því sem vel er gert. Þarna geti fulltrúar sveitarfélaga komið saman einu sinni á ári og kynnt sér þær hugmyndir sem tilnefndar eru til verðlaunanna, svipað og útgefendum er gefið færi á að hitta rithöfunda sem eiga verk sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Fólk með lágar eða meðaltekjur hefur ekki lengur ráð á …
Fólk með lágar eða meðaltekjur hefur ekki lengur ráð á að búa í hverfum sem verið er að gera upp. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekkert samtal í reynd

Eitt af því sem mjög hefur verið til umræðu á Íslandi og víðar á Norðurlöndunum er hækkandi húsnæðisverð og erfiðleika ungs fólks við að eignast þak yfir höfuðið. 

Árni Páll segir að það hafi verið mikið áfall að sjá að það væri ekkert samtal í reynd í gangi milli Norðurlandanna varðandi húsnæðismál. Hann hafi það á tilfinningunni að almennt hafi verið talið að ekki þyrfti á atbeina félagslega kerfisins eftir að búið væri að byggja ákveðið mikið af húsnæði fyrir þá sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda. Að því loknu tæki markaðurinn við.

„En það er alveg ljóst að það er ekki að gerast. Spurning um hvort húsnæðismálin hafi orðið að blindum bletti í stjórnsýslunni því það er aðeins á Íslandi og í Færeyjum sem sami ráðherrann fer með félags- og húsnæðismál. Félagsmálaráðherrarnir annars staðar á Norðurlöndunum hafa enga aðkomu að húsnæðismálunum og stefnumörkum í málaflokkinum.

Ég fann því fyrir miklum áhuga þeirra á að þetta yrði tekið upp í skýrslunni því sama staðan er alls staðar uppi. Húsnæði er mikilvægur þáttur í umgjörð um líf fólks og hentugt húsnæði hefur mikið að segja um velferð einstaklingsins og möguleika á þátttöku í samfélaginu. Þetta á við um alla, en samt sérstaklega um fólk sem þarf stuðning, þar sem til dæmis aldraðir, fólk með fötlun og jaðarsettir hópar hafa oft sérstakar húsnæðisþarfir.“

Í höfuðborgum allra norrænu ríkjanna og í fleiri borgum hafa verið gerðar endurbætur á eldri hverfum þar sem áður bjó fólk með lágar tekjur eða meðaltekjur. Þetta hefur haft í för með sér að fólk í þessum tekjuhópum hefur ekki lengur efni á að búa þar.

Fólk sem við reiðum okkur á 

Árni Páll nefnir sem dæmi að fólk með meðaltekjur, svo sem kennarar, heilbrigðisstarfsmenn, slökkviliðsmenn og lögreglumenn, hafi ekki lengur ráð á að búa í Helsinki og nágrenni.

„Hér erum við að tala um fólk sem við reiðum okkur á til að reka samfélagið. Þetta fólk er ekki lengur orðið hluti af samfélaginu og það er samfélaginu óbærilegt. Við verðum að finna lausnir á þessu og ég legg til að komið verði á samstarfi milli norrænu ráðherrana um að setja af stað húsnæðisverkefni sem miða að því að bæta úr 
þessu, segir Árni Páll og segir að hér sé mikill samhljómur meðal norrænu félagsmálaráðherranna sama hvar í flokki þeir standa.

Þátttaka á vinnumarkaði styrkir einstaklinga

Stuðningur og aðstoð við jaðarsetta einstaklinga er einn af hornsteinunum í norrænu velferðarsamfélögunum. Það á bæði við um þá sem þurfa stuðning samfélagsins um skemmri tíma og þá sem af ólíkum ástæðum þurfa stuðning samfélagsins til lengri tíma litið. Norrænt samstarf ætti að leggja af mörkum til þróunar á þekkingu og miðlun reynslu á þessu sviði en einnig skapa vettvang fyrir umræðu um hvernig gera megi velferðarsamfélagið þannig úr garði að það veiti á hverjum tíma fullnægjandi stuðning þeim sem þurfa, segir í skýrslunni.

Tenging við vinnumarkaðinn er kjarninn í mörgum lausnum í boði fyrir jaðarsetta einstaklinga. Þátttaka á vinnumarkaðnum styrkir sjálfsákvörðunarrétt og sjálfsvirðingu og opnar mikilvæga leið að tengslaneti og samfélagsþátttöku. En í öllum löndunum má sjá hópa sem þrátt fyrir margar ólíkar aðgerðir eru utan vinnumarkaðar. Þetta á einnig við um flóttafólk og innflytjendur.

Mikilvægt markmið félagslegra aðgerða er að koma í veg fyrir jaðarsetningu þeirra sem eiga torsótta leið út á vinnumarkaðinn. Þetta markmið hefur líka umtalsverða kynjavídd í norrænu samhengi, þar sem konur mennta sig nú að jafnaði meira en karlar, á sama tíma og störfum fyrir ófaglærða fækkar.

„Það kann því að vera áhugaverður útgangspunktur að leggja til þverfaglega vinnu í samstarfi við fagsvið jafnréttis- og vinnumála í norrænu samstarfi til að leiða fram heppileg norræn samstarfsverkefni sem snúa að aðstæðum jaðarsettra karla með tilliti til atvinnu- og samfélagsþátttöku,“ segir í skýrslunni.

Karlar upplifi sig félagslega einangraða

Árni Páll segir að á sama tíma og hlutur kvenna aukist á vinnumarkaði þá upplifi fleiri karlar sig sem félagslega einangraða, finni sig ekki í samtímanum, eru utanveltu og eru í meiri sjálfsvígshættu. „Þeir eru vansælli og við sáum oftar dæmi um félagslega einangraða karla sem beita ofbeldi. Þetta er hluti af samfélagslegu verkefni sem við verðum að takast á við. Snýst ekki um að hafa áhyggjur af því að konum vegni vel heldur snýst þetta um að fyrirbyggja að okkur stafi hætta af félagslegri sundrungu og körlum sem verði utanveltu í samfélaginu.

Við verðum að koma þeim inn virkni á einhvern annan hátt. Þeir þurfa að fá annað hlutverk. Foreldraorlofskerfið okkar Íslendinga, þar sem feðraorlofið er ekki framseljanlegt, er mikilvægt til þess að kynna fyrir körlum aðra tilveru og koma á öðrum tengslum en fyrri kynslóðir upplifðu.

En þetta þarf að gerast fyrr og í raun strax í skólakerfinu. Að horfa markvisst á hvernig við styrkjum tengslanet og heilbrigðar fyrirmyndir fyrir karla. Þetta getur þýtt breyttar áherslur inni á heimilinu þar sem ábyrgðin af heimilshaldi færist í auknu mæli á karlinn. Ég tel mikilvægt að hér verði gripið til aðgerða sem fyrst því Norðurlöndin þurfa þess vegna breyttra aðstæðna. Hér er þessi þróun hraðari en víðast hvar annars staðar og við eigum að nýta okkur samstarf milli ríkja til þess að skapa og byggja upp betra samfélag. Ef við bregðumst ekki við og lærum hvert af öðru er hætta að við drögumst aftur úr þegar kemur að því að skapa samfélag þar sem við komum í veg fyrir eða drögum úr jaðarsetningu og félagslegri einangrun,“ segir Árni Páll Árnason sem kynnir skýrsluna í Norræna húsinu í dag milli klukkan 12 og 13:30. 

Að loknu erindi Árna Páls taka við pallborðsumræður um úttektina og málaflokkinn. Þátttakendur í pallborðsumræðum verða, auk Árna Páls: Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, og Þorsteinn Víglundsson, alþingismaður og fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra.

Fundarstjóri er Bogi Ágústsson, fréttamaður og formaður Norræna félagsins. 

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka