Heimilið á ekki að vera staður ofbeldis

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

„Það væri best ef við þyrftum ekki að halda svona ráðstefnur og efna til vitundarvakningar um heimilisofbeldi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á ráðstefnunni „Gerum betur“ á Hótel Natura í dag. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar eru áhrifaríkar aðferðir og helstu hindranir í vinnu með heimilisofbeldismál.

Katrín benti á að lögreglu hefðu borist 890 tilkynningar vegna heimilisofbeldis í fyrra. „Heimilið á að vera griðastaður, ekki staður ofbeldis og kúgunar,“ sagði Katrín.

Verkefnið tengt ráðstefnunni kallast „Byggjum brýr - brjótum múra“ en forsætisráðherra benti á að eitt af markmiðum verkefnisins væri að fjölga tilkynningum heimilisofbeldis til lögreglu. Með því væri hægt að koma málunum upp á yfirborðið.

„Málin varða okkur öll, þó við séum ekki beinir aðilar að þeim.“

Katrín sagði að ofbeldi gegn konum sé orsök eða afleiðing kynjamisréttis. Samfélagið þurfi að takast á við þetta misrétti í öllum sínum birtingarmyndum.

Ég er ánægð með að jafnréttismál eru ein af forgangsmálum þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Katrín og bætti við að hún hefði lagt til við Alþingi að jafnréttismál verði flutt í forsætisráðuneytið. Með því verði hægt að efla málaflokkinn þvert á ráðuneyti og minnka óþarfa flækjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert