Samtök hernaðarandstæðinga ætla í sögu- og menningarferð um Þjórsárdal á laugardaginn þar sem þeir hyggjast verja deginum í að skoða náttúru og söguminjar. „Mjög óheppileg tilviljun,“ segir Guttormur Þorsteinsson, formaður samtakanna, um heræfingu Atlantshafsbandalagsins sem fer fram í Þjórsárdal sama dag.
Að sögn Guttorms er áætlunin að leggja af stað úr bænum á laugardagsmorgun. „Í Þjórsárdal ætlum við svo að skoða söguslóðir, fræðast um jarðfræðina þarna og kannski grilla eða eitthvað svoleiðis. Við vonum að það verði engin vandræði vegna þess.“
Guttormur gefur lítið fyrir þær ályktanir blaðamanns að um mótmæli sé að ræða, en segir að það verði mjög leiðinlegt ef hernaðaræfingar trufli Íslendinga á ferð um eigið land. „Við verðum ekki mjög ánægð með það.“
Þið gerið þá ekki ráð fyrir því að þið munið trufla heræfinguna?
„Nei, ég held það yrði nú frekar öfugt. Við höfum meiri rétt á að vera þarna heldur en einhverjir hermenn að þvælast,“ segir Guttormur.
Í tilkynningu frá Sambandi hernaðarandstæðinga vegna ferðarinnar segir að meðal annars verði fjallað ítarlega um sögu Gauks Trandilssonar á Stöng, sem feli í sér sígildan boðskap um fánýti ofbeldis. „Ég er nú ekki alveg sérfræðingur en vonast til að það verði þarna einhverjir á staðnum. Mér skilst að það sé nú ekki mikið vitað um hann, að þetta sé hin týnda Íslendingasaga. En það fundust þarna fornleifar á Stöng í Þjórsárdal og það verður gaman að sjá hvort einhver geti frætt okkur um þær.“