„Á meðan mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa sem rithöfundur og fæ hugmyndir til þess að vinna úr held ég áfram,“ segir Arnaldur Indriðason rithöfundur.
Ný bók hans er sú 22. í röðinni á jafn mörgum árum og nefnist Stúlkan hjá brúnni. Búist er við því að Arnaldur rjúfi 500 þúsund eintaka múrinn í sölu hér á landi fljótlega eftir að bókin kemur út í byrjun nóvember.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag rifjar Arnaldur upp að þegar hann hóf ferilinn hafi ekki verið litið á glæpasögur sem bókmenntir. Í dag séu þær blómstrandi bókmenntagrein.