Velferðarráðuneytið hefur falið Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar að útfæra tilraunaverkefni um móttöku innan heilsugæslunnar þar sem konur gætu sótt ráðgjöf og ýmsa þjónustu vegna sértækra heilsufarsvandamála sem eru bundin við konur.
Hugmyndin snýst um að veita konum sem þurfa að takast á við ýmis sértæk heilbrigðisvandamál þjónustu og ráðgjöf hjá skipulagðri starfseiningu þar sem þetta er meginviðfangsefnið. Þannig megi byggja upp sérhæfingu hjá afmörkuðum hópi fagfólks, styrkja þjónustu heilsugæslunnar á þessu sviði og efla teymisvinnu innan hennar, samkvæmt fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.
Svandís segir hugmyndina komna frá ljósmæðrum og sé að hennar mati allrar skoðunar verð: „Með slíkri móttöku/móttökum á völdum heilsugæslustöðvum væri til dæmis hægt að mæta betur þörfum kvenna í viðkvæmri stöðu, svo sem konum af erlendum uppruna og konum sem beittar hafa verið ofbeldi. Það er staðreynd að konur búa við ýmis heilsufarsvandamál sem eru sértæk, t.d. í kjölfar barnsburðar, í tengslum við tíðahvörf, í tengslum við getnaðarvarnir og svo mætti lengi telja. Þess vegna hef ég ákveðið að fela Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar að útfæra tillögu að þjónustu við konur í þessu ljósi,“ segir í fréttatilkynningu.