Sprengja úr Dýrafjarðarstafni

Dýrafjarðargöng.
Dýrafjarðargöng. Ljósmynd Karl St. Garðarsson

Útlit er fyrir það að öll vötn falli til Dýrafjarðar í apríl ef gangagröfturinn gengur jafn vel og til þessa. Eru um það bil 25 vikur þangað til gangamenn slá í gegn, þangað sem vinnu lauk Arnarfjarðarmegin.

Byrjað var að sprengja Dýrafjarðarmegin í gær. Er seinlegt að byrja, samkvæmt upplýsingum Karls St. Garðarssonar, staðarstjóra Suðurverks, vegna lausra jarðlaga. Því voru fyrstu færurnar stuttar. Vonast hann til að góður gangur verði í verkinu á næstunni eða þangað til komið verður í veikt setlag sem talið er að sé í fjallinu eftir um það bil 400 metra.

Göngin verða um 5,6 km á lengd, þar af um 5,3 km í bergi. Þegar vinnu lauk Arnarfjarðarmegin var komið 3.657,6 metra inn í fjallið sem er 69% af heildarlengdinni. Vantaði þó 27,5 metra upp á hábunguna. Lögð er áhersla á að grafa upp í móti til að ekki þurfi að dæla borvatninu út. Eftir voru þá 1.643 metrar og söxuðust fyrstu metrarnir af í gær. „Við getum ekki annað en unað vel við ganginn,“ segir Karl í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert