Samtökin Jarðarvinir telja að eftirliti með skutulbyssum Hvals hf. sem notaðar eru við hvalveiðar virðist vera verulega ábótavant og hafa sent lögreglunni á Vesturlandi erindi þess efnis.
Jarðarvinir sendu lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrirspurn varðandi skutulbyssurnar og í svari embættisins kemur fram að leyfi Hvals hf. fyrir byssunum finnist ekki í kerfi lögreglunnar. Um er að ræða tvær 90 mm Kongsbert-skutulbyssur, sem eru sérhannaðar til hvalveiða.
„Í tilefni af fyrirspurninni leitaði embætti LRH umræddra leyfa en þau fundust ekki á pappírsformi,“ segir í svari embættisins, sem bendir þó á að hafa verði í huga að skip fyrirtækisins komu til landsins árið 1964 og 1965 ásamt umræddum byssum og gætu þær því hafa verið skráðar í eldri spjaldskrárkerfum lögreglu en skráning þeirra misfarist í gagnaflutningi árið 2000 þegar núverandi skotvopnakerfi var tekið í notkun eftir samkeyrslu við eldri skrár.
Embætti ríkislögreglustjóra telur að skutulbyssur fyrirtækisins hafi verið fluttar til landsins á sínum tíma í samræmi við þágildandi lög og reglur og því hafa þær verið skráðar í rafræna skotvopnaskrá embættisins.
Svo virðist sem lítið eftirlit sé hins vegar með byssunum. Engin regluleg úttekt fer fram á vopnunum og hvorki Vinnueftirlitið né Samgöngustofa segja eftirlitið á þeirra ábyrgð, samkvæmt svari við fyrirspurn Jarðarvina.
Lögreglan á Vesturlandi er með hvalveiðar Hvals hf. til rannsóknar vegna kæru sem Jarðarvinir lögðu fram í byrjun ágúst vegna veiða fyrirtækisins á blendingshvölum. Jarðarvinir hafa nú sent embættinu viðbótargögn tengd skutulbyssunum.