„Hermenn þessir verða klæddir í hermannafatnað og bera vopn, óhlaðin, en engin skotfæri eru leyfð á þessari æfingu,“ segir lögreglan á Suðurlandi vegna heræfinga bandarískra hermanna í Þjórsárdal í dag og á morgun.
Á Facebook-síðu lögreglunnar kemur fram að hermennirnir hafi verið með undirbúningsæfingar á Íslandi en þó aðallega á Reykjanesi og við Keflavíkurflugvöll.
Tilgangurinn með gönguæfingunni í Þjórsárdal er að undirbúa hermennina til veru í slæmu veðri og kanna þolmörk þeirra í göngu með þungan búnað.
Engar lokanir hafa verið settar upp vegna æfingarinnar og ekki er gert ráð fyrir því að hún trufli umferð að neinu leyti eða valdi raski.
Lögreglan á Suðurlandi, ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, verður með gæslu á svæðinu og hermönnunum til aðstoðar.