Óku farþegum á ótryggðum bílum

Fjórtán verktakar í akstursþjónustu fatlaðra hjá Strætó lögðu niður störf …
Fjórtán verktakar í akstursþjónustu fatlaðra hjá Strætó lögðu niður störf í morgun til að mótmæla áframhaldandi viðskiptum fyrirtækisins við verktakafyrirtækið Prime Tours mbl.is/Eyþór

Fjórtán verktakar í akstursþjónustu fatlaðra hjá Strætó lögðu niður störf í morgun til að mótmæla áframhaldandi viðskiptum fyrirtækisins við verktakafyrirtækið Prime Tours, en Héraðsdómur Reykjavíkur tók fyrir gjaldþrotabeiðni vegna vangreiddra opinberra gjalda fyrirtækisins fyrr í mánuðinum.

„Þetta var ákveðið á kortéri,“ segir Sigurður Stefánsson, einyrki og verktaki hjá Strætó. „Þeir halda áfram að keyra þrátt fyrir að skiptastjóri hafi verið skipaður í gær. Við sáum að þeir voru komnir með farþega í ótryggða bíla í morgun og það fyllti mælinn.“

Sigurður segir að verktakarnir hafi ákveðið að nýta tækifærið nú til þess að mótmæla í ljósi þess að mikið sé um frí í skólum og það bitni því ekki á skjólstæðingum.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu, en þar staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, að ótryggð ökutæki frá Prime Tours hefðu verið í umferð í gær og í morgun, en að þau hafi nú verið tekin úr umferð. Strætó bíður nú frekari upplýsinga um ákvörðun skiptastjórnar og verður þá tekin ákvörðun um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka