Aldrei haft samband við þá sem gerðu tilboð

Kostnaður­ við braggann hefur farið 245 millj­ón­ir fram úr upp­haf­legri …
Kostnaður­ við braggann hefur farið 245 millj­ón­ir fram úr upp­haf­legri kostnaðaráætl­un. mbl.is/Árni Sæberg

Aðili sem sendi inn sendi inn hugmynd að rekstri og gerði tilboð í leiguverð í bragganum margumtalaða, þegar Reykjavíkurborg auglýsti eftir hugmyndum árið 2014, segir aldrei hafa verið haft samband við sig af hálfu borgarinnar, fyrir utan bréf þar sem honum var tilkynnt að tveir aðilar hefðu skilað inn hugmynd og tilboði.

Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, sagði hins vegar í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gærmorgun að þeir aðilar sem skiluðu inn hugmyndum hafi ekki treyst sér í samstarf við Reykjavíkurborg. Hann fór ekki nánar út í það en sagði að svo hefði verið tekin ákvörðun um að fara í samstarf við Háskólann í Reykjavík.

Annar aðilinn sem sendi inn tilboð segir í samtali við mbl.is að hann hafi orðið mjög hissa þegar hann heyrði þessi ummæli Hrólfs. Enda hafi ekkert samband verið haft við hann og honum ekki tilkynnt að tilboðinu hefði verið hafnað. 

Það næsta sem hann frétti af málinu var þegar hann sá í fjölmiðlum árið 2015 að Reykjavíkurborg hefði farið í samstarf við Háskólann í Reykjavík um verkefnið; að útbúa félagsaðstöðu og veitingasölu sem yrði á vegum stúdenta við HR og frumkvöðlasetur með aðstöðu fyrir nýsköpun og sprotafyrirtæki.

Auglýsing Reykjavíkurborgar frá árinu 2014.
Auglýsing Reykjavíkurborgar frá árinu 2014.

Hugmynd hans og viðskiptafélaga var að vera með kaffihús í bragganum og hafa aðstöðu fyrir stærri viðburði í stóra salnum. Hann segist ekki skilja af hverju því sé haldið fram að hann hafi ekki treyst sér í samstarf með borginni. Hann hafi vel treyst sér í það og verið tilbúinn að koma að kostnaði við endurgerð á Bragganum. 

Þá telur hann að sín hugmynd hefði orðið mun ódýrari í framkvæmd. Hún hafi ekki falið í sér að grafa hefði þurft allt svæðið og rándýrum stráum komið fyrir.

Hann segir málið lykta eins og það hafi verið búið ákveða að láta annan aðila fá verkið og að auglýsing eftir hugmyndum hafi aðeins verið sýndarmennska.

Kostnaður­ við braggann hefur farið 245 millj­ón­ir fram úr upp­haf­legri kostnaðaráætl­un. Heild­ar­stærð hús­anna þriggja; bragg­ans, náðhúss­ins svokallaða og skemm­unn­ar, er 450 fer­metr­ar. Upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir að fram­kvæmd­irn­ar myndu kosta um 250 til 330 þúsund krón­ur á fer­metra en miðað við stöðuna í dag er kostnaður við hvern fer­metra 898 þúsund krón­ur.

All­ar fram­kvæmd­ir við bragg­ann hafa verið stöðvaðar á meðan rannsókn innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar fer fram, en mik­il vinna er eft­ir í viðbygg­ing­unni, þar sem til stend­ur að opna frum­kvöðlaset­ur. Ekki er víst hvenær rann­sókninni lýkur, en borg­ar­full­trú­ar meiri­hlut­ans hafa lagt áherslu á að rann­sókn­in verði unn­in eins hratt og ör­ugg­lega og hægt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert