Landhelgisgæsla Íslands tekur á móti tveimur nýlegum leiguþyrlum á næsta ári. Þyrlurnar koma frá Noregi og eru af gerðinni Airbus H225 Super Puma, en þær munu koma í staðinn fyrir TF-GNA og TF-SYN.
Þetta staðfestir Sigurður Heiðar Wiium, yfirflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, í Morgunblaðinu í dag.
„Eigandi vélanna tveggja sem við leigjum í dag bauð okkur þessar þyrlur, sem eru mun nýrri og fullkomnari, í staðinn fyrir hinar og við höfum þegið það,“ segir Sigurður Heiðar, en stefnt er að því að taka nýju leiguþyrlurnar í notkun á vormánuðum næsta árs. Fyrri þyrlan kemur þó að líkindum hingað til lands strax í febrúar, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar breytingar í Morgunblaðinu í dag.