Verði aldrei vettvangur átaka

Frá ráðstefnunni Arctic Circle í morgun.
Frá ráðstefnunni Arctic Circle í morgun. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerði umhverfismál á norðurslóðum einkum að umtalsefni sínu í ræðu sem hún flutti í morgun á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu í Reykjavík en einnig lagði hún áherslu á mikilvægi þess að tryggt yrði að svæðið yrði herlaust í framtíðinni.

Forsætisráðherra sagði norðurslóðir mikilvægar af mörgum ástæðum. Þær væru ekki aðeins heimkynni stórkostlegrar og einstakrar náttúru sem og fjögurra milljóna manna. Svæðið skipti í raun alla heimsbyggðina máli. Það væri ekki einkamál þeirra ríkja sem væru innan þess.

Katrín lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs þegar kæmi að norðurslóðum. Þar skipti ekki aðeins máli að ríkisstjórnir kæmu að borðinu heldur einnig sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðilar. Mikilvægt væri að sem flestir tækju höndum saman í þessum efnum.

Málefni norðurslóða væri forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum. Þar væri efst á blaði mikilvægi verndar og sjálfbærrar nýtingar hafsins. Loftlagsbreytingar væru stærsta ógnin við heimshöfin í dag. Fyrir Íslendinga, sem ættu mikið undir fiskveiðum, væri það lykilatriði.

Katrín ræddi einnig mikilvægi þess að hlusta á sjónarmið þess fólks sem ætti heima á norðurslóðum þegar ákvarðanir um framtíð þess væru teknar. Tryggja yrði að samfara vaxandi áhuga á svæðinu yrði það aldrei vettvangur geópólitískra átaka.

Þar skipti sköpum að séð yrði til þess að norðurslóðir yrði herlaust svæði í framtíðinni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ræðu sína í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ræðu sína í morgun. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka