Jón Steinar prófi „sitt eigið meðal“

Jón Steinar reyndi að setja sig í samband við konur …
Jón Steinar reyndi að setja sig í samband við konur sem höfðu skrifað um hann í hópnum. mbl.is/​Hari

„Karlar gera merkilega hluti er mikilvægur og valdeflandi vettvangur en tilvist hans verður hvorki útskýrð eða rökrædd við mann sem skrifar feðraveldi innan gæsalappa og skilur ekki hvað „öruggt svæði“ er,“ segir í yfirlýsingu stjórnenda Facebook-hópsins „Karlar gera merkilega hluti, Sóleyjar Tómasdóttur, Hildar Lilliendahl og Sæunnar Ingibjargar Marinósdóttur. Maðurinn sem vísað er til er Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, en þær segja að hann ætti kannski að prófa sitt eigið meðal.

Tilefni yfirlýsingarinnar er grein Jón Steinars sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann fjallaði um ummæli sem höfðu verið látin falla um hann á síðunni. „Þetta er fólk sem greini­lega kýs að taka enga ábyrgð á skoðunum sín­um og tján­ingu jafn­vel þó að ein­hverj­ar þúsund­ir manna hlusti á,“ sagði Jón Steinar meðal annars í greininni og átti þar við meðlimi hópsins. Sagðist hann hafa hringt í nokkrar kvennanna sem höfðu látið ummæli falla um hann, en aðeins náð tali af einni. Hann hafi beðið hana um að hitta sig en hún hafi ekki viljað það og skellt á.

Í yfirlýsingu stjórnendanna segir að í stórum og virkum hópi séu innlegg og ummæli misfyndin og misviðeigandi eins og gengur og gerist með. Ritstjórnir fjölmiðla með athugasemdakerfi ættu að þekkja slíkt vel.

Sóley Tómasdóttir er ein stjórnenda hópsins.
Sóley Tómasdóttir er ein stjórnenda hópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í umfjöllun um hópinn undanfarna daga hafa verið tínd til ummæli sem sum hver hafa verið óviðeigandi. Þó skal tekið fram að flest þeirra eru látin falla vegna viðtals þar sem þekktur verjandi kynferðisafbrotamanna ætlaðist til þess að þolendur fyrirgæfu gerendum sínum. Í viðtalinu kom Jón Steinar Róbert Downey til varnar, en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum fyrir tíu árum. Kannski ætti lögmaðurinn að prófa sitt eigið meðal og fyrirgefa konunum sem tala um hann á internetinu frekar en að hringja í þær og skrifa um þær greinar í blöðin.“

Jafnframt segir að hópurinn sé lifandi vettvangur fyrir konur til að fá útrás í heimi þar sem karllæg gildi eru metin ofar kvenlægum. Í honum séu nú á tíunda þúsund kvenna sem í langflestum tilfellum geri góðlátlegt grín að fréttamati fjölmiðla þar sem hver karlahópurinn á fætur öðrum sé mærður fyrir skóflustungur og boltaspark á meðan framlag kvenna til samfélagsins sé sjaldan til umfjöllunar.

„Við munum hér eftir sem hingað til leggja okkur fram um að stýra þessum hóp og gæta þess að þar sé umræða innan siðferðismarka þó vissulega geti eitthvað farið framhjá okkur eins og einstaka ummæli sem birt hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu sýna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert