Farþegavél Icelandair á leið frá Orlando í Flórída til Keflavíkur í nótt var snúið við og henni lent á Saguenay Bagotville-flugvellinum í Quebec í Kanada vegna neyðartilfellis. Farþegar í vélinni greina frá atburðarásinni á Twitter og segja að flugmaðurinn hafi tilkynnt að vinstri rúða í flugstjórnarklefanum hafi brotnað. Vélin átti að lenda á Keflavíkurflugvelli um klukkan sex í morgun.
Icelandair hefur svarað nokkrum farþeganna á Twitter og staðfest að flugmaðurinn hafi tekið eftir sprungu rúðu þegar flogið var yfir Kanada, en þá hafi verið ákveðið að snúa vélinni við, samkvæmt verklagsreglum. Farþegar í vélinni voru um 160, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.
Guðjón segir að áhöfnin og farþegar séu nú komnir á hótel og önnur vél verði send á eftir til Kanada til þess að sækja farþegana. „Þetta atvikast þannig að þegar vélin er yfir Kanada, á leið frá Orlando til Íslands, þá sjá flugmenn að það er komin sprunga í framrúðuna í stjórnklefanum. Þá lenda þeir vélinni á næsta flugvelli, samkvæmt verklagi. Það gekk allt saman vel og tíðindalítið.“
Farþegar segja loftþrýsting ekki hafa fallið í vélinni og súrefnisgrímur ekki hafa fallið niður þrátt fyrir að flugið hafi verið lækkað hratt vegna neyðarlendingarinnar. Guðjón staðfestir þetta við mbl.is.
Einn farþegi birti mynd af því þegar kanadíska tollgæslan kom um borð til að framkvæma vegabréfaeftirlit. Hann segir flugvöllinn vera svo lítinn að hann hafi ekki getað tekið við svo mörgum í vegabréfaeftirlit á sama tíma.
Þá voru farþegar vélarinnar beðnir afsökunar á óþægindunum og þeim tilkynnt að rútur biðu þeirra fyrir utan vélina, sem myndu flytja þá á hótel.