Bókaþjóð á örmarkaði

Laun til höfunda reiknast sem hlutfall af heildsöluverði útgefenda og …
Laun til höfunda reiknast sem hlutfall af heildsöluverði útgefenda og breytist ekki þó að verð út úr búð sé hækkað eða lækkað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í langflestum tilvikum er vonlaust fyrir rithöfund að lifa eingöngu af launum fyrir sölu bóka sinna hér á landi, þrátt fyrir að höfundar hér á landi fái hærri prósentu af heildsöluverði en kollegar þeirra erlendis. Hlutur rithöfunda og bókaútgefenda af söluverði bóka hefur rýrnað á síðustu áratugum.

Í umfjöllun um mögulegt afnám virðisaukaskatts af bókum, sem síðar breyttist í sérstakan stuðning við bókaútgáfu, kom upp forvitnileg umræða um kjör rithöfunda. Í því ljósi er athyglisvert að skoða hver hlutur þeirra af bóksölu er og hvernig kakan skiptist.

Á meðfylgjandi grafi er búið til dæmi sem gefur nokkuð raunsanna mynd af bóksölu. Þó verður að hafa nokkurn fyrirvara. Til að mynda að verð á bókum getur verið afar breytilegt og bóksalar gefa oft háa afslætti í jólabókaflóðinu. Laun til höfunda reiknast þó sem hlutfall af heildsöluverði útgefenda og breytist ekki þó að verð út úr búð sé hækkað eða lækkað.

Þarna sést að stærsti hluti kökunnar er heildsöluverð útgefenda en þar að baki býr þó kostnaður við prentun, dreifingu, ritstjórn, yfirlestur, markaðssetningu og fleira. Hlutur bóksalans er drjúgur en getur eins og áður segir breyst eftir útsöluverði. Hlutur rithöfunda er 23% af heildsöluverði frá útgefanda, samkvæmt rammasamningi. Ríkið leggur svo virðisaukaskatt á. Þegar horft er til barnabóka er hlutur höfunda í krónum talið enn rýrari enda er heildsöluverð mun lægra.

Minna greitt fyrir barnabókaskrif

Ef höfundur selur 1.500 eintök af skáldsögu miðað við þessi dæmi fær hann að launum 1.345.000 krónur. Barnabókahöfundurinn fær hins vegar 931.500 krónur í laun. Um verktakagreiðslur er að ræða. 1.500 eintök telst nokkuð góð sala fyrir skáldsögur á Íslandi. Vinsælir höfundar selja gjarnan meira en mörg dæmi eru um að þekktir höfundar selji minna.

Ef þetta dæmi er heimfært á Arnald Indriðason, en Forlagið hefur staðhæft að bækur hans séu prentaðar í hátt í 30 þúsund eintökum, og reiknað út frá 25 þúsund seldum bókum fær hann í sinn hlut 22.425.000 krónur.

Finna má ítarlegri umfjöllun um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert