Komin í húsaskjól eftir skógarvistina

Sobo Anwar Hasan, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim …
Sobo Anwar Hasan, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim var vísað úr landi fyrr á árinu og hafa verið á vergangi síðan. mbl.is/Jóhann

Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answ­ar Has­an og börn þeirra, Leo og Leona, sem flúðu til Frakklands frá Þýskalandi eft­ir að um­sókn þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi og áður í Þýskalandi var hafnað, eru nú komin í húsaskjól eftir að hafa hafst við í tjaldi úti í skógi.

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Morgane Priet-Mahéo, sem hefur komið að máli fjölskyldunnar hér á landi, sendi mbl.is.

Mbl.is greindi frá því í síðustu viku að fjölskyldan hefðist við í tjaldi í skógi nálægt borginni Calais og var Leona, sem er aðeins um sex mánaða gömul, lasin.

Fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi í fyrra, en umsókn hennar var synjað á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar og var fjölskyldan send til Þýskalands í nóvember í fyrra. Þeim hafði áður verið synjað um vernd í Þýskalandi og stóð til að gera það á ný.

Nasr og Sobo segjast óttast um líf sitt verði þau send aftur til Íraks og Írans, en þau segjast Kúrdar og er Nasr með íraskt ríkisfang, en Sobo íranskt. Börnin þeirra, Leo og Leona, eru bæði fædd í Þýskalandi, en eru ríkisfangslaus.

„Samstaðan í Frakklandi var ótrúleg og fólk sótti fjölskylduna í skógin, keyrði hana á lestarstöð, borgaði fyrir miða og gaf pening, beið eftir henni þar sem þau áttu að skipta um lest, og sótti þau í Suður-Frakklandi til að koma þeim í skjól,“ segir Morgane í bréfi sínu.

Clement ásamt Nasr, Sobo og Leo um borð í lestinni …
Clement ásamt Nasr, Sobo og Leo um borð í lestinni frá Calais. Ljósmynd/Aðsend

Ferðuðust 1.000 km

Hún hafði greint frá stöðu fjölskyldunnar í skóginum innan fransks Facebook-hóps sem styður flóttamenn og í kjölfarið fór af stað atburðarás þar sem fólk víða um Frakkland kom að því að finna fjölskyldunni í húsaskjól.

Einn þeirra var Clement Franzoso, sem reglulega  kemur við í umræddum skógi til þess að færa flóttamönnum og hælisleitendum teppi og annan búnað. Kvaðst hann viljugur að hafa uppi á fjölskyldunni og tók að sér að koma þeim á lestarstöð og kaupa fyrir þau lestarmiða.

Annar, Daniel Alexandre sem er sjálfboðaliði hjá lúterskum söfnuði í Montpelier, bauðst til þess að finna fyrir þau dvalarstað og koma þeim til Suður-Frakklands. Sambýliskona hans er ljósmóðir við kvennaspítala í borginni og hefur tekið að sér að hýsa flóttafjölskyldur með ungabörn eða barnshafandi konur.

Bæði börn­in fædd­ust í Þýskalandi og eru bæði rík­is­fangs­laus, enda hafa þau verið á flótta allt sitt líf. For­eldr­arn­ir segja að sam­kvæmt siðum í Íran til­heyri börn­in Evr­ópu af því að þar sé fæðing­ar­land þeirra.

„Ef við för­um aft­ur til Íran telj­um við lík­legt að hann [Leó] verði grýtt­ur til dauða. Þau munu segja að hann sé trú­laus eða krist­inn og eigi enga framtíð í Íran, eins og for­eldr­ar hans,“ sagði Nasr síðasta haust. Hann bætti því við að fjöl­skyld­an vildi bara lifa eðli­legu lífi en þau kunnu vel við sig hér á landi þann stutta tíma sem þau voru á land­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert