Flugáhugamaður og ljósmyndari hefur birt mynd af skemmdunum sem urðu á rúðu farþegavélar Icelandair þegar hún var á leið frá Orlando í Flórída til Keflavíkur aðfaranótt laugardags. Þegar flugmenn vélarinnar urðu varir við sprungur vinstri framrúðu í flugstjórnarklefanum var vélinni lent á næsta flugvelli, Saguenay Bacotville-flugvellinum í Quebec í Kanada. 160 farþegar voru um borð.
Tom Podolec sérhæfir sig í ljósmyndun flugvéla og veitir upplýsingar um atvik sem koma upp í flugi á Twitter-síðu sinni. Hann var einn þeirra sem greindi frá því í gær að vél Icelandair hefði verið snúið við og henni lent vegna neyðartilfellis. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var rúðan töluvert mikið brotin.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is að samkvæmt verklagi hefði vélinni verið lent á næsta flugvelli þegar flugmenn urðu varir við sprungurnar. „Það gekk allt saman vel og tíðindalítið,“ sagði hann.
Þórdís Ósk Sigtryggsdóttir var um borð í vélinni og sagði í samtali við mbl.is í gær að mikil stilling hefði verið meðal farþega. „Ég hugsa að fólk hefur eflaust hugsað, bíddu í hverju er ég lent? En allir tiltölulega rólegir. Þetta gerðist nokkuð hratt, svona um tuttugu mínútur frá því að ljósin blikkuðu,“ sagði Þórdís. „Flugstjórinn var mjög rólegur og yfirvegaður og sagði allt „under control“. Hann róaði okkur og flugfreyjurnar voru allar yfirvegaðar,“ bætti hún við.