Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður ætlar ekki að höfða mál gegn femínistunum sem höfðu um hann ljót ummæli á lokaða Facebook-svæðinu „Karlar gera merkilega hluti“. Jón Steinar var gestur Páls Magnússonar í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun þar sem persónulegar árásir í hans garð og tjáningarfrelsið var til umræðu.
„Þær geta verið rólegar yfir því,“ sagði Jón Steinar þegar Páll spurði hann hvort hann hefði velt þeim möguleika fyrir sér. Sagði Jón Steinar að með grein sinni í Morgunblaðinu á föstudag hafi hann viljað sýna hvaða aðferðir væru notaðar í dag til þöggunar.
„Ég var að vekja athygli manna á því sem ég kalla orðsóðaskap hóps sem telur sig hafa málstað sem hann vill styðja,“ sagði Jón Steinar en bendir á að hópurinn kjósi að loka að sér á Facebook. „Þar er skipst á orðskviðum sem mér fannst fela í sér einhvern ótrúlegasta orðsöfnuð sem ég hef séð í seinni tíð. Ég skoðaði þessi ummæli sem voru höfð um mig og ákvað að skera upp herör gegn þessum vinnubrögðum,“ sagði Jón Steinar.
„Þessi viðhorf hafa haft mikil áhrif í samfélaginu. Ég held að flestir stjórnmálamenn séu skíthræddir við þetta fólk,“ sagði Jón Steinar. „Við eigum að brjótast út úr þessu, láta rök mæta rökum. Finna út hvað er rétt og hvað er ekki rétt í málum.“
Jón Steinar sagði að með því að hafa fjallað um mál Roberts Downey hafi margir úr umræddum hópi talið hann meðsekan um kynferðisbrot sem Robert framdi. Þá sagðist hann aldrei hafa krafist fyrirgefningar af hálfu fórnarlamba Roberts, heldur hafi hann bent á þann mikilvæga boðskap að fyrirgefning sé þýðingarmikill þáttur fyrir þolendur ofbeldis og hann hefði talið það að meinlausu að benda á að betra sé að fyrirgefa en að lifa áfram með hatur í brjósti sér.
„Það varð uppi fótur og fit að ég skyldi benda á þetta,“ sagði Jón Steinar. Einhverjir hafi gengið svo langt að ætla að Jón Steinar væri þátttakandi í brotum mannsins og hefði samúð með þeim. Jón Steinar benti á að hann hafi aðeins einu sinni verið verjandi manns sem var sakaður um kynferðisbrot og sá hafi verið sýknaður. „Það þarf að sanna sök til að sakfella menn fyrir dómstólum. Það gildir um þennan flokk eins og aðra brotaflokka.“
Jón Steinar ræddi einnig mál Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við Háskólann í Reykjavík sem nýlega var sagt upp störfum vegna ummæla hans á Facebook. Sagði hann Háskólann í Reykjavík ekki enn hafa svarað bréfi sem hann sendi fyrir um það bil hálfum mánuði fyrir hönd umbjóðanda síns.
„Við ættum öll að muna í hvers konar þjóðfélagsgerð við lifum og viljum lifa,“ sagði Jón Steinar. Sagði hann að víða um heim væru tilteknar skoðanir bannaðar, þar sem þeir sem brjóti gegn því banni séu beittir refsingum og viðurlögum. „Við erum með tjáningarfrelsi, í því felst frelsi til að segja það sem við viljum segja, þó þannig að við berum ábyrgð,“ sagði Jón Steinar.
„Hann [Kristinn] var með skoðun sem menn geta verið sammála eða ósammála. Ég er ekki sammála umbjóðanda mínum um þetta, ég vil að karlar og konur vinni saman. Beiti aðferð lýðræðis og talist við ef ágreiningur er um skoðanir. Við verðum að halda dauðahaldi í það,“ sagði Jón Steinar.
Benti Jón Steinar á að Jordan Peterson hafi bent á að í Bandaríkjunum sé mönnum ráðlagt að loka ekki að sér ef þeir eru með aðila af hinu kyninu með sér. „Það koma oft fram ásakanir á hendur mönnum og þá skiptir sönnunarfærsla engu máli. Þessi maður sem leitaði til mín var rekinn úr vinnunni fyrir að vera með hugleiðingar um þetta,“ sagði Jón Steinar sem telur að brotinn hafi verið réttur á Kristni með uppsögn hans, en meðal þess sem hann benti á í bréfi sínu til Háskólans í Reykjavík var að Kristinn hefði notið réttarstöðu eins og opinber starfsmaður og telur Jón Steinar að rektor hafi ekki áttað sig á því áður en hann sendi bréfið.