Ójöfn lýsing á Reykjanesbraut

Vegfarendur á Reykjanesbraut hafa gert athugasemdir við nýja ljósastaura sem settir hafa verið upp við veginn. Líkt og eiginlega allir nýir ljósastaurar sem settir eru upp hér á landi eru staurarnir með LED-perum sem hefur í för með sér umtalsverðan orku- og viðhaldssparnað. Athugasemdir hafa verið settar inn á Facebook-hópinn Stopp hingað og ekki lengra!, þar sem sett er út á að of mikill munur sé á birtuskilyrðum. Ljósið sé mjög skært við staurana en algert myrkur sé þess í milli. Nú eru 130 metrar á milli ljósastaura en bilið var 65 metrar þegar þeir voru fyrst settir upp árið 1996. Þá þurfti að lækka staurana úr 12 metrum í 10 metra sem einnig hefur áhrif á ljósvistina á veginum.  

Misjafnt er hvernig lýsing og glýja hefur áhrif á fólk en einn bílstjórinn sem tekur til máls á spjallþræðinum segist nú þurfa að nota skyggnin í bílnum til að verjast óþægilegri birtu á veginum.       

Talið óvinsælt að sleppa lýsingu

Í hruninu var slökkt á öðrum hverjum ljósastaur á leiðinni í sparnaðarskyni og þegar kom að endurnýjun stauranna í fyrra var ákveðið að halda því bili og fækka staurunum um helming. Svanur Bjarnason, svæðisstjóri suðursvæðis hjá Vegagerðinni, segir að þegar kom að endurnýjun á gömlu staurunum hafi þurft að taka tillit til ýmissa þátta. Vel hafi komið til greina að sleppa lýsingu á brautinni þar sem ekkert í reglugerðum segir að hún eigi að vera upplýst að fullu. Líklegt hafi verið talið að það yrði óvinsælla fyrirkomulag en lýsingin sem var svo sett upp. 

Ákvörðunin um að lýsa brautina upp á sínum tíma var pólitísk. „Það var því meðvituð ákvörðun að uppfylla ekki lýsingarkröfur samkvæmt stöðlum í þetta sinn,“ segir Svanur í samtali við mbl.is. Til að uppfylla staðla hefði þurft að hafa ljósastaura á milli veghelminga. Búið var að leggja leiðslur öðru megin á veginum og því hefði þurft að fara í töluverða fjárfestingu til að uppfylla staðla. Almennt segir Svanur að verið sé að skipta yfir í 10 metra háa staura þar sem þeir gefi betur eftir, sé á þá keyrt og með fullkomnari lýsingartækni sem LED-lampar bjóði upp á.

Kysi að sleppa staurunum

Guðjón L. Sigurðsson, lýsingarhönnuður, sá um hönnun á upphaflega lýsingu Reykjanesbrautarinnar árið 1996. Hann segir að þrátt fyrir að viss öryggistilfinning fylgi því að hafa lýsinguna eins og hún er, hefði hann kosið að hafa hana einungis á stöðum þar sem reglugerðir krefjast lýsingar t.a.m. við hringtorg og af- og aðreinar. Munurinn á birtunni við staurana og svæðunum þess á milli sé of mikill. Jafnleiki birtunnar sé ekki eins og best verði á kosið. „Á álagstímum er þetta, ég segi ekki hættulegt, en þetta er ekki eins og við myndum helst sjá það.“

Í myndskeiðinu er rætt við Guðjón og birtan frá ljósastaurunum skoðuð með dróna en þannig sést afar vel hvernig birtan dreifist á veginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka