Samkvæmt nýrri viðhorfskönnun Deloitte á Íslandi hafa 80% fyrirtækja hérlendis orðið fyrir svonefndri „veiðipóstaárás“, en slíkar árásir nefnast „phishing“ á ensku.
Í slíkum netárásum felst meðal annars að tölvuþrjótar reyna að narra móttakendur tölvupósts til þess að senda sér viðkvæmar upplýsingar eins og lykilorð starfsmanna eða þá að fórnarlömbin eiga að smella á hlekki í póstinum, sem leiða fórnarlambið þá á allt annan og verri stað en hann taldi að hlekkurinn leiddi til.
Þorvaldur Henningsson, yfirmaður netvarnadeildar Deloitte á Íslandi, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag að árásir af þessari gerð séu mjög mismunandi að gerð og gæðum. Hins vegar séu afleiðingarnars fyrir þau fyrirtæki sem verða fyrir árásunum oft mjög alvarlegar. Því sé mikilvægt að fyrirtæki hugi vel að því hvernig eigi að verjast árásum af þessu tagi.
Þar skiptir mestu máli að starfsfólk sé vel upplýst um það hvernig veiðipóstar líti út sem og að fólk sé almennt vel vakandi fyrir því hvort þeir tölvupóstar sem það fær séu frá réttum aðilum eða ekki.