„Breytingar keyrðar áfram af mannvonsku“

Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sú nýja forysta sem hefur verið að koma fram á völlinn í verkalýðshreyfingunni, hefur þau sjónarmið að ef þú ert ekki sammála þeim þá eigir þú að víkja, engin málefnaleg umræða.“ Þetta skrifar Guðmundur Ragnarsson, fyrrverandi formaður VM, á Facebook í gær.

Guðmundur Helgi Þórarinsson var kjörinn formaður VM í lok apríl og lauk þar með tíu ára formannssetu Guðmundar Ragnarssonar. Hann segir tímabært að líta um öxl og gagnrýnir harðlega mótframbjóðanda sinn og segir að skortur sé á málefnalegri umræðu í verkalýðshreyfingunni.

Guðmundur segir að í aðdraganda kosninga hjá VM hafi verið keyrt á sömu aðferðafræði og til formanns VR. „Málefnalegri umræðu var ýtt snyrtilega til hliðar en allt kapp lagt á persónulegar árásir á forystu verkalýðshreyfingarinnar. Hamast var á neikvæðri umræðu um laun formanns, sem stjórn félagsins ber reyndar ábyrgð á. Meðframbjóðandinn bað um launaseðil formanns fyrir árið 2017 á stjórnarfundi til að nota og sá þessu eitri sér til framdráttar,“ skrifar Guðmundur.

Stunginn í bakið af gömlum samherja

Hann segir að talað hafi verið um að skipta um forystu til að gera eitthvað. Átta til tíu ár þættu algjört hámark í formannsstóli. „Skipti þá ekki máli hvort hann hafði staðið sig eða ekki, það var aukaatriði. Sú umræða yfirtók það sjónamið að reynsla og þekking séu verðmæti,“ skrifar Guðmundur. Hann bætir við að meðframbjóðandi hans hafi verið stjórnarmaður í öll þau ár sem hann var formaður, án þess að gagnrýna eitt né neitt.

Það er hægt að velta sér upp úr þessu lengi. Að það séu til einstaklingar sem nýta sér ástandið til að koma svona í bakið á manni eftir að hafa tekið þátt í öllu sem félagið hefur verið að gera, það er sárt. Er þetta hin nýja verkalýðshreyfing þar sem þeir sem kalla eftir breytingum og réttlæti keyri hana áfram af mannvonsku og óheiðaleika gagnvart félögum sínum?“ spyr Guðmundur og telur að svona vinnubrögð skili ekki árangri.

Hann segir það stefnu nýrrar forystu í verkalýðshreyfingunni að fólk skuli víkja ef það er ekki sammála þeim. „Það er annað hvort þeirra leið eða engin önnur, sem engin veit hver er. Þau telja sig þess umkomin að boða hinn eina rétta sannleika og hann sé hafinn yfir gagnrýni,“ skrifar Guðmundur. 

Erfitt að taka þátt í hugmyndalausri byltingu

Að hans mati er sorglegust aðförin sem gerð hefur að forystu stéttarfélaga en engar hugmyndir séu gerðar um hvernig eigi að leysa málin og hvert eigi að stefna. „Það er erfitt að taka þátt í þessari svokölluðu byltingu sem ekki hefur hugmyndir eða leiðir til lausna, hvað þá að megi tala um þær. Halda menn virkilega að allir launamenn munu sætta sig við að aðeins þeir lægst launuðu fái verulegar launahækkanir án þess að aðrar fái eitthvað svipað?“ spyr Guðmundur og bætir við að það hafi verið reynt áður og valdi óánægju þeirra sem eru með hærri laun og fá ekki svipaðar hækkanir.

Óheiðarleiki og vinsældarfrasar án framtíðarsýnar og markmiða munu leiða okkur í ógöngur eins og við erum að verða vitni að á mörgum sviðum, Trump, Brexit og Ísland. Það getur orðið okkur mjög dýrkeypt efnahagslega að hlusta eingöngu á það sem við viljum heyra,“ skrifar Guðmundur en pistilinn má lesa í heild sinni hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert