Framkvæmdum við braggann í Nauthólsvík af hálfu Reykjavíkurborgar er lokið og hefur Háskólinn í Reykjavík tekið húsnæðið í notkun, að sögn Óla Jóns Hertervig, setts skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) hjá Reykjavíkurborg.
Frá því að kostnaður við uppbyggingu braggans varð fyrirferðarmikill í fjölmiðlum hefur öllum framkvæmdum á svæðinu verið hætt. Byggingarnar á svæðinu eru þrjár talsins; braggi, skemma og náðhús. Matsölustaður hefur opnað í bragganum og skemman verður brátt tekin í notkun sem félagsaðstaða og nýsköpunarsetur. Til stendur að fyrirlestrarsalur fyrir nemendur í Háskólanum í Reykjavík opni í náðhúsinu en því verki er langt frá því að vera lokið.
Óli Jón segir að engar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar séu lengur á svæðinu. „Reykjavíkurborg hefur fullnægt ákvæðum leigusamnings og HR tekið húsnæðið í notkun. Aðstaðan mun vonandi nýtast stúdentum og starfsfólki HR vel ókomin ár sem félagsaðstaða og nýsköpunarsetur,“ segir í svari Óla Jóns við fyrirspurn mbl.is.
Þá segir Óli Jón að frá því að hann tók við skrifstofustjóra SEA 15. júlí síðastliðinn hafi hann farið yfir framkvæmdirnar við braggann í Nauthólsvík með borgarstjóra. Forveri hans í starfi, Hrólfur Jónsson, sagði fyrir helgi að hann hafi aldrei nokkurn tíma rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um uppbygginguna við braggann í Nauthólsvík.
Óli Jón segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefði átt að grípa fyrr inn í þegar ljóst var að framúrkeyrsla yrði á kostnaði við framkvæmdirnar. „Já, það hefði átt að gera borgarráði skýrari grein fyrir stöðu framkvæmda og kostnaði. Það er á ábyrgð skrifstofu eigna og atvinnuþróunar,“ segir í svari Óla Jóns.