Hætt verði að nafngreina sakamenn

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Verði fyrirhugað frumvarp Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra að lögum verða dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni ekki lengur birtir opinberlega. Þar er um að ræða mál sem snúast um lögræði, sifjar, erfðir, málefni barna, ofbeldi í nánum samböndum, nálgunarbann og kynferðisbrot. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að aðeins verði birtir útdrættir úr dómum Landsréttar og Hæstaréttar í slíkum málum þar sem einungis komi fram réttarframkvæmd og á hverju niðurstaðan er byggð.

„Með þessu móti verður betur tryggð persónuvernd í viðkvæmustu málunum en hún verður ekki fyllilega tryggð með því að birta dóma undir nafnleynd, þar sem viðbúið er að greina megi aðila af öðrum atriðum sem fjallað er um eins og áður er getið. Með því að semja slíkan útdrátt er einnig komið í veg fyrir að greina megi persónur í dómi vegna mistaka við nafnhreinsun eða úrfellingar en nokkur brögð hafa verið að því við birtingu dóma og hafa sum þeirra verið mjög bagaleg,“ segir í greinargerð frumvarpsdraganna en undanfarna tvo áratugi hafa dómar verið birtir í heild á vefsíðum dómstólanna og í viðkvæmum málum án persónuupplýsinga en áður voru dómar Hæstaréttar aðgengilegir á pappírsformi.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Birting dóma sætt nokkurri gagnrýni

Einnig er lögð til nafnleynd í öllum tilfellum við birtingu dóma í sakamálum um þá sem þar koma við sögu. Það eigi bæði við um þá sem dæmdir eru, vitni og brotaþola. „Hér er meðal annars haft í huga að í sakamálum er oft nauðsynlegt að gæta nafnleyndar gagnvart dómfellda til að koma í veg fyrir að greina megi brotaþola. Að auki er litið til þess að afar íþyngjandi kann að vera ef dómur með nafni dómþola er aðgengilegur um ókomna tíð á vefnum og jafnvel löngu eftir að viðkomandi hefur lagt sinn brotaferil að baki.“

Enn fremur segir að þótt augljós rök mæli með því að úrlausnir dómstóla séu aðgengilegar verði að hafa í hug að oft og tíðum komi fyrir viðkvæmar persónuupplýsingar í þeim. Birting þeirra kunni að verða við mannréttindaákvæði. „Með því að safna slíkum upplýsingum saman kerfisbundið í áratugi og veita aðgang að þeim með leitarvélum er hætt við að ekki sé fyllilega gætt að sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, en þau réttindi eru varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Bent er á að í sumum tilfellum hafi verið ófullnægjandi að birta dóma undir nafnleynd þar sem ráða megi af málsatvikum og aðstæðum hverjir eigi í hlut, oft í viðkvæmum málum. Birting dóma hafi fyrir vikið sætt nokkurri gagnrýni. Þannig hafi til að mynda umboðsmaður barna vakið athygli á því að birting dóma sem snerta börn geti komið hart niður á þeim og Persónuvernd hafi opinbera birtingu dóma einnig til skoðunar. Tilgangurinn með frumvarpinu er einnig að tryggja samræmdar reglur í þessum efnum á milli dómstiga.

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert