Það að kalla blaðamann „óvin vinnandi stétta“, að segja að honum hafi verið „sigað á [okkur] af húsbónda sínum“ og lýsa honum sem „holum manni“, vegna harðra skoðanaskrifa hans um samningskröfur stéttarfélaga, er tilraun til að vega að mennsku hans og trúverðugleika.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu hjá Jóni Trausta Reynissyni, ritstjóra Stundarinnar. Tilefnið eru ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, þar sem hún segir leiðara Harðar Ægissonar, ritstjóra Markaðarins, lýsa „sturlaðri“ stemningu í „herbúðum óvina vinnandi stétta“.
„Stéttarfélögin hafa góðan málstað eftir stórtækar launahækkanir ráðamanna og forstjóra, stöðugar húsnæðisverðhækkanir, minnkandi bótagreiðslur og vegna ömurlegrar stöðu lágtekjufólks og þeirrar staðreyndar að Íslendingar vinna að meðaltali mun meira en helstu samanburðarþjóðir,“ skrifar Jón Trausti.
Hann segir að hvað sem fólki þyki um skrif Harðar sé ekkert sem staðfesti að hann sé „handbendi“ eða stýrist af einhverjum „húsbónda“.
„Hann kann að hafa sínar skoðanir og hans skoðunum getum við verið ósammála. Það er munur á því að hafa skoðun eða vera beinlínis í duldum hagsmunaárekstri. Þess fyrir utan hefur Hörður augljóslega gert margt gott og mikilvægt í blaðamennsku, til dæmis afhjúpað svívirðilegar bónusgreiðslur,“ skrifar Jón Trausti en færslu hans má sjá hér að neðan.