Vildu finna Íslandsbænum nýtt hlutverk

Þau Heiðdís Pétursdóttir og Hreiðar Hreiðarsson opnuðu nýlega gististað í …
Þau Heiðdís Pétursdóttir og Hreiðar Hreiðarsson opnuðu nýlega gististað í torfbæjarstíl skammt frá Hrafnagili. Ljósmynd/Aðsend

„Við vissum svo sem ekkert hvað við ætluðum að gera fyrst og svo varð þetta bara svona,“ segir Heiðdís Pétursdóttir sem opnaði nýlega, ásamt Hreiðari Hreiðarssyni manni sínum, gististað í torfbæjarstíl skammt frá Hrafnagili.

Gististaðurinn nefnist Íslandsbærinn og var upphaflega reistur fyrir rúmlega 20 árum af tengdaföður hennar, sem einnig heitir Hreiðar Hreiðarsson, og gegndi þá hlutverki veitingaskála. Fjallað var um Íslandsbæinn í Lesbók Morgunblaðsins 1999 og segir greinarhöfundur að við smíðina hafi „bersýnilega verið að halda til haga gamalli hefð, en einnig vekur athygli að hvert smáatriði er fallega unnið.“

Ljósmynd/Aðsend

Bæinn reisti Hreiðar, sem var veitingamaður og smiður ásamt sonum sínum þeim Hreiðari og Sindra sem báðir eru smiðir, og var veitingaskálinn opnaður 1997. Síðan eru liðin rúm 20 ár og hin síðari ár var Íslandsbærinn í eigu banka sem gerði lítið til að halda húsinu við.

„Gátum ekki horft upp á þetta“

„Þetta var komið í svo mikla niðurníðslu að við bara gátum ekki horft upp á þetta lengur,“ segir Heiðdís en þau Hreiðar keyptu húsið af bankanum fyrir 3-4 árum. „Síðan erum við búin að vera að dúlla okkur í þessu. Við vissum svo sem ekkert hvað við ætluðum að gera við hann fyrst, en urðum að finna bænum eitthvert hlutverk.“ Hún segir þau hins vegar ekki hafa viljað endurgera bæinn sem veitingaskála. „Okkur langaði til að gera eitthvað nýtt.“ 

Ljósmynd/Aðsend

Heiðdís segir endurbæturnar á Íslandsbænum vera alfarið verk þeirra hjóna. „Ég bý líka svo vel að eiga þennan mann sem er smiður, þannig að maður hefur bara fengið að blómstra í hönnun hérna.“

Þau hafi þó líka notið aðstoðar tengdapabba við endursmíðina og segir Heiðdís hann, líkt og aðrir íbúa í nágrenninu, vera sáttan með útkomuna. „Fólkið hérna í kring er ofboðslega ánægt með að við skyldum gera eitthvað fyrir húsið og þeim, sem hafa komið hingað, finnst þetta líka æðislegt,“ bætir hún við og rifjar upp að einn þeirra hafi sagt: „Þetta er ekki hús, þetta er höll.“

Fanney Sól Hreiðarsdóttir, dóttir þeirra Heiðdísar og Hreiðars, málaði skiltið …
Fanney Sól Hreiðarsdóttir, dóttir þeirra Heiðdísar og Hreiðars, málaði skiltið sem er með upprunalegu lógói afa hennar. Ljósmynd/Aðsend

Steinflögur í stað torfs og klömbrurnar úr timbri

Töluverða vinnu þurfti þó að leggja í verkið og voru klömbrurnar og grjótið í torfbænum til að mynda illa farið eftir vanrækslu undanfarinna ára. Þeim var því skipt út og flatar steinflögur sem líta út eins og torf voru settar í staðinn og þá eru klömbrurnar nú gerðar úr timbri. „Það kom okkur eiginlega á óvart hvað þetta er líkt,“ segir hún og kveður þau svo eiga eftir að tyrfa þakið að hluta.

Fallegt handbragð á loftaklæðningunni sem Hreiðar gerði fyrir 20 árum nýtur sín svo innan dyra og segir Heiðdís að þegar húsið var komið vel á veg þá hafi þeim ekki fundist koma til greina að fara að hrúga inn kojum og gera það þröngt. „Heldur vildum við frekar bara leyfa fólki að njóta,“ segir hún.

„Þetta var bara orðið svo fallegt að allt í einu vorum við komin með sérmerkt rúmföt, handklæði, náttsloppa og súkkulaði og þannig var þetta bara orðinn svolítill lúxus.“

Málverkin á veggjunum eru verk Sunnu Bjarkar Hreiðarsdóttur, sem er …
Málverkin á veggjunum eru verk Sunnu Bjarkar Hreiðarsdóttur, sem er dóttir Hreiðars sem upphaflega byggði bæinn. Ljósmynd/Aðsend

Þau leyfa gamla tímanum líka að njóta sín innan dyra og hefur gömul eldavél úr eigu fjölskyldunnar þannig fengið hlutverk borðs. Koparlistar í eldhúsinu voru meðhöndlaðir sérstaklega til að fá á þá dekkri áferð svo viðhalda mætti eldri tíðaranda. Nútímaþægindum er þó ekki sleppt í húsinu, sem er með gistirými fyrir sjö, og er það til að mynda með bæði vínskáp og skíðageymslu, enda ekki langt að skreppa í Hlíðarfjall.

Bærinn er leigður út sem ein heild og segir Heiðdís hann henta vel t.d. fyrir saumaklúbba, vinahópa og stærri fjölskyldur. Gott aðgengi sé þá fyrir hjólastóla úr einu herberginu út á veröndina, þar sem heitum potti hefur verið komið fyrir.

Ljósmynd/Aðsend

Hún segir þau vera hægt og rólega að láta vita af sér, til að mynda á Facebook-síðunni Old Farm/Íslandsbærinn og svo sé vefsíða í smíðum.

„Svo erum við svo heppin að geta haldið nafninu, en húsið var skírt Íslandsbærinn á sínum tíma og lógóið er líka það sama tengdapabbi teiknaði fyrir rúmum 20 árum.“

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert