Nauðsynlegt er að fara í heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um skýrslutöku á sakborningum og vitnum með það fyrir augum að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks.
Þetta er meðal þess sem starfshópur um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða leggur til í nýrri skýrslu. Við þá vinnu er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á að skoða tilhögun skýrslutöku af fötluðu fólki og þá í samræmi við þá þróun sem orðið hefur annars staðar á Norðurlöndunum.
Engin sérákvæði um tilhögun skýrslutöku af viðkvæmum vitnum/sakborningum er nú að finna í núgildandi lögum um meðferð sakamála. Hingað til hefur oftast verið stuðst við ákvæði sem segir að það megi taka dómsskýrslu af brotaþola eða vitnum á rannsóknarstigi ef slíkt er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna þeirra, svo sem ef um börn er að ræða, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.