Traust til þjóðkirkjunnar minnkar talsvert á milli ára, en þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til kirkjunnar samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Það er tíu prósentustigum lægra hlutfall en í fyrra.
Rúmlega 28% Íslendinga bera hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar, en 39% bera til hennar lítið traust. Aðeins 3% bera fullkomið traust til þjóðkirkjunnar og 10% fullkomið eða mjög mikið traust.
Eldra fólk ber meira traust til þjóðkirkjunnar en yngra fólk og íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að bera til hennar traust en höfuðborgarbúar. Þá er munur á trausti eftir fjölskyldutekjum og eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en stuðningsfólk Sjálfstæðis- og Miðflokksins er líklegast til að bera traust til þjóðkirkjunnar.
Þá minnkar ánægja með störf biskups, Agnesar M. Sigurðardóttur, talsvert frá því í fyrra, eða úr 27% í 14%. Konur eru almennt ánægðari með störf Agnesar.