„Menn hafa látið í sér heyra af minna tilefni,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, þar sem hún spurði utanríkisráðherra hvort hann hefði ekki áhyggjur af þróun mála í Bandaríkjunum. Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta íhugar að afmá skilgreiningu á transfólki.
„Virðing fyrir mannréttindum er ein af grunnstoðum utanríkisstefnu Íslands og íslensk stjórnvöld eru málsvarar mannréttinda á vettvangi fjölþjóðastofnana og gagnvart einstökum ríkjum,“ sagði Hanna.
Hanna sagði áformin hafa vakið hörð viðbrögð og sagði að slíkar aðgerðir snúist yfirleitt upp í útskúfun og jaðarsetningu á viðkvæmum hópum, einangri þá sem eru að berjast fyrir tilverurétti sínum og oft endi það í einhverju mun verra.
Hún spurði Guðlaug hvort hann hefði ekki áhyggjum af þróun mála vestanhafs og hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda yrðu.
„Það er líka vert að geta þess hér að varlega áætlað er transfólk í Bandaríkjunum 1,5 milljónir. Þetta er fimmföld íslenska þjóðin. Menn hafa látið í sér heyra af minna tilefni,“ sagði Hanna.
„Mannréttindum transfólks er hins vegar því miður víða ábótavant, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, bæði hvað varðar viðhorf og löggjöf,“ sagði Guðlaugur og bætti við að fyrirhugaðar breytingar í Bandaríkjunum yrðu afturför.
Hann sagði enn fremur að í tvíhliða samráð við samstarfsríki hafi Íslendingar ávallt tekið upp stöðu mannréttindamála og engin breyting verði þar á, hvorki gagnvart Bandaríkjamönnum né öðrum.