Tvö herskip fengu á sig brotsjó og sneru við

Herskipið USS New York var annað þeirra sem fékk á …
Herskipið USS New York var annað þeirra sem fékk á sig brotsjó og sneri við. Ljósmynd/Bob Kopprasch

Tvö bandarísk herskip sem voru á leið til Noregs eftir heræfingu NATÓ hér á landi sneru við og héldu til hafnar á ný vegna slæms veðurs. Fengu þau á sig brotsjó og þarf annað skipanna að koma inn til viðgerða. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.

Annað skipanna er komið að Skarfabakka, en hitt skipið er rétt fyrir utan Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is slösuðust einhverjir skipverja á öðru skipinu þegar það fékk á sig brotsjóinn, en Sveinn gat ekki staðfest það. Hann segir ljóst að vont hafi verið í sjóinn undanfarið og það hafi verið aðalástæða þess að skipin sneru við, en þau lögðu af stað í gær frá landi.

Herskipin sem um ræðir eru annars vegar USS New York og hins vegar USS Gunston Hall.

Fjölmörg herskip komu til landsins vegna heræfingarinnar, meðal annars USS …
Fjölmörg herskip komu til landsins vegna heræfingarinnar, meðal annars USS Iwo Jima. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka