Konur eru hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:55 í dag, á kvennafrídeginum. Þá hafa þær unnið fyrir launum sínum, sem samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu eru 74% af meðaldagvinnutekjum karla, og sé miðað við fullan vinnudag sem hefst klukkan níu og lýkur kl. 17 verður vinnudegi kvenna lokið eftir fimm klukkustundir og 55 mínútur.
Síðast þegar kvennafrídagurinn var haldinn, árið 2016, töldust konur vera með um 70% af tekjum karla og voru því hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:38. Þar áður var dagurinn haldinn 2010, þá var þessi tímasetning 14:25, og árið 2005 var hún 14:08.
Á þeim 13 árum sem síðan eru liðin hefur tímasetningin því færst fram um 47 mínútur. Það eru 3,6 mínútur á ári og haldi sú þróun áfram verða laun karla og kvenna jöfn sumarið 2053, að því er fram kemur í umfjöllun um kvennafrídaginn í Morgunblaðinu í dag.
„Við ætlumst til að konum og körlum séu borguð sömu laun fyrir sambærileg störf. Við höfum ítrekað bent stjórnendum á nauðsyn þess að nýta krafta allra starfsmanna sinna,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um kvennafrídaginn og nauðsyn hans. Haldnir verða baráttufundir víða um land í dag, m.a. á Arnarhóli kl. 15:30 en fundurinn er skipulagður af fjölda samtaka kvenna og launafólks .