Allir sýknaðir í Aurum-málinu

Lárus Welding, Óttar Pálsson lögmaður og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Lárus Welding, Óttar Pálsson lögmaður og Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur sýknaði í dag alla þrjá sakborningana í Aurum-málinu svokölluðu, þá Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var aðaleigandi bankans í gegnum eignarhaldsfélagið FL Group. Verður allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði en hann nemur samanlagt tæpum 60 milljónum króna.

Landsréttur sneri þar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá nóvember 2016 við hvað varðar Lárus, sem var þar dæmdur í eins árs fangelsi, og Magnús, sem hlaut þá tveggja ára fangelsisdóm. Héraðsdómur sýknaði hins vegar Jón Ásgeir en ákæruvaldið áfrýjaði þeirri niðurstöðu. Landsréttur staðfesti í dag sýknudóminn. Hins vegar undi ákæruvaldið sýknudómi yfir fjórða sakborningnum, Bjarna Jóhannessyni.

Ákæran í málinu snerist sex milljarða króna lán Glitnis til einkahlutafélagsins FS38, sem var eignalaust félag með takmarkaða ábyrgð, til kaupa á bréfum eignarhaldsfélagsins Fons í skartgripafélaginu Aurum Holding. Voru Lárus og Magnús ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir Glitni misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga. Jón Ásgeir var ákærður fyrir hlutdeild í brotinu en til vara hylmingu en annars peningaþvætti.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun um lánveitinguna hafi þeir Lárus og Magnús mátt styðjast við mat á virði veða sem sett voru fyrir lánveitingunni. Fyrir vikið hafi ekki verið sýnt fram á að þeim hefði hlotið að vera ljóst, eða látið sér í léttu rúmi liggja, að þeir væru að misnota aðstöðu sína þannig að jafn miklar líkur eða meiri líkur væru á því að fjártjón hlytist af. Mætti leiða líkum að því þeir hafi haft réttmætar væntingar um að lánveitingin og tengdar ráðstafanir trygginga væri fyrir lánveitingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka