Ríkið gerir kröfu um að sá hluti Drangajökuls sem tilheyrir Strandasýslu verði þjóðlenda. Ekki eru gerðar aðrar kröfur á svæði 10A sem nær yfir Strandasýslu og fyrrverandi Bæjarhrepp í Hrútafirði. Þess ber að geta að meginhluti jökulsins tilheyrir öðru kröfusvæði, 10B (Ísafjarðarsýslur).
Fjármálaráðherra gerir kröfur til óbyggðanefndar, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi. Nefndin hefur nú kynnt kröfur um Strandasýslu og er þetta svæði það fyrsta sem óbyggðanefnd tekur fyrir á Vestfjörðum. Nefndin skorar á alla sem telja til eignarréttinda á umræddum hluta af Drangajökli að lýsa kröfum sínum skriflega í síðasta lagi 1. febrúar næstkomandi.
Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðisins mun óbyggðanefnd úrskurða um framkomnar kröfur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.