Frásagnir af kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni frá konum úr ólíkum starfsstéttum í kjölfar #metoo-byltingarinnar sem hófst í fyrra er meðal ástæða þess að á kvennafrídeginum í ár er lögð sérstök áhersla á öryggi kvenna á vinnustöðum með því að mótmæla ofbeldi og áreitni á vinnustað.
Þetta segir Helga Lind Mar, talskona Druslugöngunnar sem eru ein af fjölmörgum samtökum sem standa fyrir baráttufundi á Arnarhóli í dag í tilefni af kvennafrídeginum.
„Við sáum í #metoo að ofbeldi er marglaga og margbreytilegt,“ segir Helga Lind, sem bendir einnig á að byltingin á Íslandi náði ef til vill dýpra þar sem hér varð mikil vitundavakning ári fyrr þegar konur sögðu frá reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi undir myllumerkinu #þöggun og #konurtala.
„Á Íslandi vorum við búin að fara í gegnum það árið 2015 að opna á þessa umræðu um ofbeldi. Þegar #metoo fer af stað úti þá fer það miklu dýpra hér og þess vegna förum við svona djúpt í að sýna hversu kerfisbundið ofbeldi er innan starfsstétta hér á landi. Það kristallast svo í þessum sögum að kerfisbundið áreiti er að eiga sér stað,“ segir Helga Lind.
Hún segir einnig að það sem hafi jafnvel mest komið á óvart að frásagnir af ofbeldi eru að finna hjá nánast öllum starfsstéttum og á mjög breiðu sviði. „Eins og til dæmis í réttarvörslukerfinu, sem er kerfi sem á að halda utan um þolendur og á að vera fyrirmyndin. En þar er þetta líka að eiga sér stað. Það var sjokkerandi að sjá að ofbeldið er alls staðar.“
Skipuleggjendur Druslugöngunnar eru á meðal tæplega 40 samtaka sem standa að baráttufundinum á Arnarhóli í dag sem fer fram undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu! Konur er hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14:55 til að mótmæta kjaramisrétti og ofbeldi á áreitni á vinnustað.
Hingað til hefur höfuðáhersla verið lögð á kynbundinn launamun á kvennafrídeginum en nú virðist sem skilgreining á kvennafríi sé orðin víðtækari. „Kynbundinn launamunur og ofbeldismenning er ekki sitt hvort hluturinn, þetta eru allt mismunandi hliðar á teningnum sem er valdaójafnvægið,“ segir Helga Lind.
Með samstöðufundinum í dag vonast Helga Lind til þess að samstaða meðal kvenna aukist. „Því oftar sem maður hittist í þessum tilgangi því öflugari verður orkan. Samstaðan verður meiri. Að vera alltaf að berjast einn í sínu horni er mjög lýjandi. Þetta er aukinn kraftur inn í baráttuna.“
Þá segir hún samstöðu alltaf vera af hinu góða. „Styrkurinn sem felst í því að vera á sama stað og fólkið sem er að berjast fyrir sömu hlutum og þú er ótrúlegur. Í versta falli hefur þetta engin áhrif út á við en valdeflingarmátturinn sem þetta hefur fyrir þær konur sem mæta er svo mikilvægur,“ segir Helga Lind, sem hvetur allar konur til að fjölmenna á samstöðufundi í dag, hvort sem það er á Arnarhóli eða annars staðar á landinu.