Samstöðu- og baráttufundir verða haldnir víða um land í dag í tilefni af kvennafrídeginum þar sem konur eru hvattar til þess að leggja niður störf klukkan 14:55 í dag, miðvikudag. Í ár er vakin sérstök athygli á kynbundnum mun atvinnutekna, sem og almennu öryggi kvenna á vinnustöðum. Kjörorð Kvennafrís 2018 eru: „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!“
Fjölmörg samtök kvenna og launafólks standa að Kvennafríi, auk þess sem forsætisráðuneytið hefur lagt verkefninu lið. Stærsti samstöðufundurinn fer fram á Arnarhóli og hefst hann klukkan 15:30. Fundarstýrur eru Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir. Meðal þeirra sem flytja ávörp eru Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Áslaug Thelma Einarsdóttir baráttukona.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum er vakin athygli á að pallur með rampi fyrir hjólastóla verður staðsettur fyrir framan svið á Arnarhóli. Þá er aðstaða fyrir rútur og bíla fyrir hreyfihamlaða til að hleypa farþegum út á plani fyrir framan Hörpu. Einnig er bílastæði á móti Skúlagötu 4 er frátekið fyrir bíla hreyfihamlaðra.
Fundir fara fram um allt land og hér má sjá yfirlit yfir samstöðufundina sem skipulagðir eru:
Baráttufundur verður haldinn á Akureyri og hefst fundur klukkan 15:15. Anna Soffía Víkingsdóttir sér um fundarstjórn og munu konur úr heimabyggð flytja ávarp ásamt því að Kvennakór Akureyrar mun taka lagið.
Háskólinn á Bifröst mun sýna beint frá samstöðufundinum á Arnarhóli og eru konur og karlar á Bifröst og nærliggjandi sveitum hvött til að mæta og sýna samstöðu.
Í Borgarnesi verður sömuleiðis sýnt beint frá samstöðufundinum á Arnarhóli. Konur og karlar í Borgarbyggð eru hvött til að hittast í Hjálmakletti klukkan 15:15.
Samstöðufundur verður haldinn í Ungó á Dalvík klukkan 15:15. Björk Hólm ávarpar samkomuna og þá munu þrjár kjarnakonur úr heimabyggð taka til máls. Kvennakórinn Salka lýkur dagskránni með laginu Áfram stelpur!
Á Grundarfirði hefst samstöðufundur í samkomuhúsinu klukkan 15:30 en konur eru hvattar til að hittast við víkingasvæðið klukkan 15:15 og ganga fylktu liði í samkomuhúsið þar sem sterkar og dugmiklar konur úr héraði verða með ávörp.
Á Ísafirði ætla konur að yfirgefa vinnustaði klukkan 14:55 og safnast saman á Silfurtorginu og ganga fylktu liði í Alþýðuhúsið þar sem baráttufundur fer fram.
Í Mývatnssveit verður haldinn baráttufundur á Fosshóteli og hefst hann klukkan 15.
Í Neskaupstað hefst baráttufundur klukkan 15 á Hildibrand-hóteli og eru konur af öllu Austurlandi hvattar til að mæta.
Baráttufundur verður haldinn á Skerinu í Ólafsvík klukkan 15.
Boðað hefur verið til samstöðufundar í matsal Alcoa Fjarðaráls klukkan 14:55. Framkvæmdastjóri álversins mun sjá um vöfflubakstur og munu konur af Austurlandi flytja hugvekjur.
Á Selfossi fer fram samstöðufundur í Sigtúnsgarði og hefst hann klukkan 15:30. Fulltrúar ungra kvenna verða með ávarp og lýkur dagskránni á fjöldasöng.
Í Skaftárhreppi hefur verið boðað til samstöðufundar í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri og hefst hann klukkan 15.
Á Skagaströnd fer fram samstöðufundur í Gamla kaupfélagshúsinu, á efstu hæð, og hefst hann klukkan 15.
Baráttuganga fer fram í Varmahlíð og eru konur hvattar til að fylkja liði að Varmahlíðarskóla og ganga að hótel Varmahlíð þar sem samstöðufundur hefst klukkan 15:30.
Nánari upplýsingar um Kvennafrí og samstöðufundi má nálgast á heimasíðu Kvennafrís 2018.