„Alþingi er í sérstakri stöðu sem vinnustaður og hér verður þingfundi lokið klukkan 14:55,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar blaðakona mbl.is náði af henni tali rétt áður en þingfundur hófst klukkan 13:30.
„Hér í Stjórnarráðinu hef ég sent öllu mínu starfsfólki bréf þar sem konur eru hvattar til þess að yfirgefa staðinn ásamt mér og mæta á Arnarhól.“
Katrín segir kvennafrídaginn afar mikilvægan og að sjálf hafi hún alltaf litið á hann sem stóran áfanga í jafnréttisbaráttunni á Íslandi. „En auðvitað væri best ef við þyrftum ekki að halda slíkan dag. Það er markmiðið.“
Auk launajafnréttis er áhersla lögð á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á kvennafrídeginum í ár. „Kynbundið ofbeldi er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis og endurspeglar þá kerfislægu mismunun sem við virðumst búa við.“
„Það eru mjög mikilvæg skilaboð sem felast í því að þetta snúist ekki um að breyta konum, heldur að breyta samfélaginu,“ segir Katrín.