Hvatt er til þess í sameiginlegri yfirlýsingu félaga hundaræktenda á Norðurlöndunum að við yfirstandandi endurskoðun íslenskra reglur um einangrun hunda sem fluttir eru til landsins verði annað hvort hætt að gera kröfu um einangrun, og þess í stað notast við aðrar aðferðir teljist þær fullnægjandi eða einangrunartíminn styttur.
Fram kemur í yfirlýsingunni að Hundaræktarfélag Íslands hafi um árabil hvatt íslensk stjórnvöld til þess að endurskoða núgildandi kerfi sem geri ráð fyrir að innfluttir hundar þurfi að vera í einangun í fjórar vikur. Mikilvægt sé að tryggja öryggi Íslands þegar komi að nýjum sjúkdómum og fullur stuðningur sé við mikilvægi þess. Hins vegar verði aðgerðir í þeim efnum að vera í samræmi við þá áhættu sem fyrir hendi er.
Þannig sé núverandi kerfi barn síns tíma og byggt á mati frá árinu 2003 sem hafi verið hannað á grundvelli aðferðafræði þar sem núverandi aðferð hafi verið borin saman við stöðu mála ef ekkert væri gert. Kerfið hafi verið hannað af sérfræðingum sem ekki hafi haft sýn á málin utanfrá sem væri nauðsynleg til þess að geta lagt rétt mat á málið. Fagnað er því að verið sé að hanna nýtt hlutlægt áhættumat og að íslensk stjórnvöld hafi fengið dr. Preben Willeberg, virtan vísindamann, til þess að vinna það.
Ennfremur segir að staðfesti niðurstaða Willebergs að hægt sé að tryggja nauðsynlegt öryggi án einangrunar, líkt og verið hafi niðurstaðan á Kýpur og Bretlandi, ætti einangrun að vera hætt. Verði niðurstaðan sú að einangrun sé nauðsynleg leggja samtökin áherslu á að hún vari eins stutt og mögulegt sé og ekki lengur en sú áhætta sem fyrir hendi sé krefjist. Þá ætti eigendum að vera heimilt að heimsaækja hunda sína á meðan á einangruninni stendur.