Eggvopn og barnaníðsefni fundust á heimili hjóna sem grunuð eru um gróf kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur. Fyrirtaka í máli hjónanna fer fram 5. nóvember en ákæra á hendur þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Í ákærunni, sem RÚV hefur fengið afhenta, er maðurinn sagður hafa nauðgað stjúpdóttur sinni í félagi við móður hennar auk þess að taka hreyfi- og ljósmyndir af brotunum og þannig framleitt myndefni sem sýnir barnið á kynferðislegan hátt. Í ákærunni kemur einnig fram að móðirin er sögð hafa veitt dóttur sinni áfengi meðan á brotunum stóð.
Hjónin eru einnig ákærð fyrir brot gegn dóttur sinni og í ákærunni eru þau sögð hafa framið brotin að henni viðstaddri. Á dóttirin að hafa horft á brotin gegn systur sinni og með því eru hjónin sögð hafa ógnað velferð stúlkunnar á alvarlegan hátt.
Þá er maðurinn ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa í vörslu sinni á heimilinu 807 ljósmyndir og 29 myndskeið sem sýna börnin á kynferðislegan hátt. Einnig er hann ákærður fyrir brot á vopnalögum þar sem á heimili hjónanna fannst mikið af eggvopnum, meðal annars 50 sentimetra langt sverð, butterfly-hnífur, tveir stunguhnífar, kasthnífur og slöngubyssa.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sagði að hjónin hefðu játað brot sín að hluta en gat ekkert tjáð sig frekar um málið þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hana fyrir utan dómsalinn í dag. Líkt og fyrr segir fer fyrirtaka í málinu fram 5. nóvember.