Hildur Þórisdóttir, mannauðsstjóri Mannvits, hefur sent forsvarsmönnum samstöðufundarins, sem fór fram á Arnarhóli í gær í tengslum við kvennafrídaginn, erindi þar sem hún gerir alvarlegar athugasemdir við dagskrá fundarins.
„Í dag fannst mér afskaplega sorglegt að sjá konu afhent gjallarhorn og gefið tækifæri til að ráðast á aðra konu. Hún fékk að ávarpa samkomuna í dag og ráðast að konu í stjórnunarstöðu sem starfs síns vegna getur ekki varið sig gegn málflutningi hennar.
Þarna vísa ég til ræðu Áslaugar Thelmu Einarsdóttur sem kaus að beina spjótum sínum sérstaklega að starfsmannastjóra Orkuveitunnar, sem einnig er kona,“ skrifar Hildur í færslu sem hefur verið birt á Facebook.
Hún segir ennfremur að það ætti að vera skipuleggjendum kvennafrídagsins fullljóst að sú fordæmalausa umfjöllun sem málið hafi fengið í fjölmiðlum að undanförnu endurspegli aðeins það sem fram hefur komið á samfélagsmiðlum af hálfu Áslaugar Thelmu og eiginmanns hennar.
Eins og fram hefur komið var Áslaugu sagt upp störfum hjá Orku náttúrunnar, sem er dótturfyrirtæki OR, um miðjan september. Hún hefur gagnrýnt fyrrverandi framkvæmdastjóra ON, Bjarna Má Júlíusson, fyrir óviðeigandi hegðun gagnvart starfsfólki fyrirtækisins. Í ræðu sinni í gær sagði hún að það hefði verið erfitt að fara til yfirmanna sinna til að tilkynna brot á eigin vinnustað, sem lesa má í meðfylgjandi frétt.
„Spor þín eru þung á fyrsta fundinn með starfsmannastjóra, þyngri á fund tvö og svo framvegis. Erindið er alltaf það sama. Þú ert að tilkynna ruddaskap og dónaskap á þínum vinnustað. Örvæntingin er mikil þegar starfsmannastjórinn segir þér að spjalla við hann og finna út úr þessu,“ sagði Áslaug sem gagnrýndi framkomu starfsmannastjórans.
„Starfsmannastjórinn og aðrir stjórnendur Orkuveitunnar eru bundnir trúnaði starfs síns vegna og geta ekki tjáð sig efnislega um málið í fjölmiðlum. Þó er ljóst að málið er nú til skoðunar hjá innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar og niðurstaða þeirrar skoðunar mun væntanlega leiða í ljós hvað sé rétt og rangt varðandi efnisatriði málsins. Mér finnst það því sýna mikið dómgreindarleysi hjá skipuleggjendum dagsins að setja þetta mál í brennidepil,“ skrifar Hildur ennfremur.
Myndskeið frá samstöðufundinum má sjá í meðfylgjandi frétt, en ræða Áslaugar hefst á mínútu 48:30.