Gangi ný miðspá Hagstofunnar eftir verða íbúar landsins orðnir 364 þúsund árið 2020. Það yrði fjölgun um 31 þúsund íbúa frá árinu 2016.
Slík fjölgun jafnast til dæmis á við allan íbúafjölda Hafnarfjarðar og samanlagða íbúafjölgun á Íslandi áratuginn 2006 til 2016. Hagstofan gerir reglulega mannfjöldaspá. Samkvæmt spánni sem var gerð 2016 var gert ráð fyrir tæplega 352 þúsund íbúum 2020 í miðspá. Með nýrri mannfjöldaspá hækkar miðspáin í 364 þúsund.
Hefur hún því verið endurmetin til umtalsverðrar hækkunar, að því er fram kemur í umfjöllun um áætlaða mannfjöldaþróunina í Morgunblaðinu í dag.
Mikill aðflutningur erlendra ríkisborgara á þátt í íbúafjölguninni. Um 22.400 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því á tímabilinu frá 1. janúar 2012 og fram á mitt þetta ár. Svo mikil íbúafjölgun hefur víðtæk efnahagsleg áhrif. Til dæmis segir í nýjum Fjármálastöðugleika Seðlabankans að skv. mannfjöldaspá Hagstofunnar muni íbúum á höfuðborgarsvæðinu ekki fjölga til jafns við nýjar íbúðir á næstu árum. Þróun búferlaflutninga næstu misseri gæti því haft mikil áhrif á íbúðamarkaði.