Jón Trausti vill skaðabætur frá ríkinu

Jón Trausti sætti einangrun í 21 dag en Sveinn Gestur …
Jón Trausti sætti einangrun í 21 dag en Sveinn Gestur Tryggvason var einn ákærður og dæmdur í málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Jón Trausti Lúthersson fer fram á 10,5 milljónir í skaðabætur frá ríkinu vegna ólögmæts gæsluvarðhalds sem hann sætti vegna rannsóknar á dauða Arnars Jónssonar Aspar á síðasta ári. Þetta staðfestir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns Trausta, í samtali við mbl.is en Fréttablaðið greindi fyrst frá.

Jón Trausti sætti einangrun í 21 dag en Sveinn Gestur Tryggvason var einn ákærður og dæmdur fyrir að hafa valdið dauða Arnars. Sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.

Ríkislögmaður hafnar bótakröfu Jóns Trausta með þeim rökum að hann hafi sjálfur valdið eða stuðlað að gæsluvarðhaldinu með því að hafa ekki sýnt samvinnu við rannsókn málsins, gefið litlar eða óljósar skýringar á atburðarás og hafnað því að veita lögreglu leyfi til að skoða símann sinn. „Það verður væntanlega tekist á um þetta,“ segir Sveinn Andri.

„Framburður hans var mjög skýr og frásögn hans í samræmi við frásögn annarra vitna og tók engum breytingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert