Kísilver PCC á Bakka við Húsavík keypti um 2.000 tonn af kvarsi frá Stakksvík sem nú á kísilver United Silicon í Helguvík. Hráefnið var flutt með Eems River til Húsavíkur.
Jökull Gunnarsson, forstjóri PCCBakki Silicon, segir að fyrirtækið hafi vantað kvars í framleiðsluna vegna þess að seinkun hafi orðið á skipi sem flytur hráefni frá Egyptalandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Stakksvík hefur verið að hreinsa til á lóð kísilversins í Helguvík. Fram kom nýlega á vef Víkurfrétta að allt trjákurl og kol hafi verið flutt til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.
PCC hefur á undanförnum vikum verið að gangsetja seinni ljósbogaofn kísilversins, Boga, en það hefur gengið brösuglega. Þurft hefur að reyna aftur og aftur. Jökull segir að ekki sé nákvæmlega vitað hvað er að en helst talið að nokkrir samverkandi þættir orsaki það að ekki hefur verið hægt að koma ofninum í framleiðslu. Nú hafa öll rafskaut sem voru upprunalega í ofninum verið fjarlægð og í honum eru því aðeins rafskaut af annarri framleiðslulotu.