Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi velferðarráðherra, segir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hætta sér út á hálan ís með fullyrðingum sínum um að launamunur kynjanna sé innan við 5%.
Þorsteinn tjáir sig um málið í færslu á Facebook, en Sigríður tjáði sig um launamuninn á Facebook í gær og sagði þá launakannanir of takmarkaðar í eðli sínu til að slá nokkru föstu um kynbundið misrétti er kæmi að launum. Sagði hún þær ályktanir sem dregnar væru af tölum Hagstofunnar um meðalatvinnutekjur karla og kvenna á vef Kvennafrídagsins vera beinlínis rangar.
Í færslu sinni segir Þorsteinn vissulega rétt hjá ráðherra að horfa þurfi til ýmissa þátta sem skýri launamun kynjanna. Engu að síður sé líka vert að hafa í huga að þeir þættir séu „margir hverjir fjarri því að vera málefnalegir eða merki um jafnrétti á vinnumarkaði“.
Þannig sé í þeirri launakönnun Hagstofunnar sem vísað sé til m.a. tekið tillit til mannaforráða og ábyrgðar. „Það er nokkuð stór skýribreyta. Konur eru um 20% stjórnenda á vinnumarkaði. Ekki vegna þess að þær hafi lakari menntun eða skort á metnaði heldur vegna þess að þær búa við mun lakari framgang í starfi en karlar. Það heitir glerþak og ætti að vera fólki sem lætur jafnréttismálin sig varða ágætlega kunnugt. Sá launamunur sem af þessu stafar er því einmitt merki um skort á jafnrétti á vinnumarkaði en ekki öfugt,“ skrifar Þorsteinn.
„Þá er líka í sömu launakönnun tekið tillit til sambúðarstöðu og barnafjölda. Hvort tveggja, þ.e. að vera í sambúð/gift og eiga börn, hefur jákvæð áhrif á laun karla en lítil sem engin og ef eitthvað neikvæð áhrif á laun kvenna. Held við hljótum flest hver að vera sammála um að það sé ekkert málefnalegt við þetta. Á raunar ekkert erindi í launarannsókn sem þessari að „leiðrétta“ launamun fyrir slíkum þáttum. Reykjavíkurborg geri það til að mynda ekki í sínum launarannsóknum.“
Nefnir Þorsteinn ennfremur að ekkert tillit sé tekið til mats á verðmæti ýmissa starfa, til að mynda þess að dæmigerðar kvennastéttir séu að jafnaði mun verr launaðar en fjölmennar karlastéttir með sambærilega lengd menntunar og ábyrgð.
„Ég held að við ættum bara að halda okkur við að horfa á óleiðréttan launamun og loka því gati. Og það er alveg óþarfi fyrir konur að „mæta aðeins fyrr í fyrramálið“. Þær eru löngu búnar að vinna fyrir þessum klukkustundum. Á hverjum degi raunar.“