„Þetta eru írskir menn sem eru á ferðinni,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Kópavogi. Íbúar í Kópavogi hafa undanfarna daga hringt í lögregluna og kvartað yfir mönnum sem ganga í hús og bjóðast til að spúla innkeyrslur, glugga eða þök gegn gjaldi.
Í upphafi er boðið lágt verð í þjónustuna en svo þegar verkið er komið af stað eða er að ljúka er tilgreint að það þurfi að greiða meira því vinnan sé miklu meiri. Lögreglan hafði áður varað íbúa á Seltjarnarnesi við því að kaupa þjónustu mannanna.
Gunnar segir að til að bjóða þessa þjónustu verði að skrá reksturinn hjá ríkisskattstjóra og hafa heimild til þess. Mennirnir hafi hingað til ekki gert það en málið er til skoðunar hjá lögreglu og hefur verið tekin skýrsla af mönnunum.
Fólk er hvatt til að afþakka strax alla svona þjónustu og hafa samband við lögreglu í síma 444-1000 eða 112.