Vill lægri fjármagnstekjuskatt

Konráð Guðjónsson.
Konráð Guðjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, telur að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri hér á landi vegna verðbólgu heldur en af launatekjum. Hann nefnir sem dæmi að ef verðbólga er talsverð, eða bara einhver, þá rýrnar kaupmátturinn af innistæðu fólks á bankabók. Samt greiðir fólk fullan fjármagnstekjuskatt af verðbótum.

„Við höfum bent á að skattprósenta af raunávöxtum ríkiskuldabréfa, sem er áhættuminnsta fjárfesting sem þú getur farið í, hefur verið yfir 60% á Íslandi til lengri tíma, sem er gríðarlega hátt skatthlutfall,“ sagði hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 en Viðskiptaráð hefur birt stutt myndband um fjármagnstekjuskatt á vefsíðu sinni.

Skattprósentan í dag er 22% og hefur hækkað úr 10% á innan við áratug, þar með talið um tvö prósentustig um síðustu áramót.

Skattlagðar tvisvar

Konráð bætir því við að þegar fjármagnstekjuskattur er greiddur út sem arður þurfi að hafa í huga að það séu tekjur sem búið er að skattleggja áður sem hagnað. „Það er eins og launatekjurnar þínar séu skattlagðar tvisvar. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að það sé tekinn tekjuskattur og svo aftur fjármagnstekjuskattur en þetta þýðir það að raunveruleg skattprósenta er tæplega 40% þrátt fyrir allt,“ sagði hann.

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. mbl.is/Ófeigur

Gylfi Arnbjörnsson, fráfarandi forseti ASÍ, var einnig gestur þáttarins og sagðist vera mjög ósammála honum og nefndi að um væri að ræða sitthvorn skattaðilann. Fyrirtæki borguðu tekjuskatt af sinni starfsemi og síðan ætti sá sem ætti fyrirtækið að borga fjármagnstekjuskatt af arði sínum. „Þá getum við væntanlega líka haldið því fram að eigendur sem vinna í sínu fyrirtæki borgi rosalega háan tekjuskatt af því að þeir borgi líka fjármagnstekjuskatt og borgi líka skatt af tekjum fyrirtækisins.“

Hann sagði mjög mikilvægt að færa þyngdina af fjármögnun ríkisins meira yfir á auðlindir og fjármagn. „Það er alveg klárt mál að hér á Íslandi skattleggjum við fjármagnið mjög lítið. Við skattleggjum ekki virðisauka eigna ef þær eru ekki innleystar,“ útskýrði hann og benti á að mjög lítið mál væri að færa auð á milli kynslóða hér á landi. Erfðaskattur væri mjög lágur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert