Vissu að ákvörðunin yrði umdeild

Konur fjölmenntu í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem hátíðardagskrá …
Konur fjölmenntu í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem hátíðardagskrá fór fram vegna kvennafrídagsins. mbl.is/Eggert

Aðstandendur Kvennafrís vissu að ákvörðun þeirra um að gefa Áslaugu Thelmu Einarsdóttur orðið á samstöðufundi á Arnarhóli í gær yrði umdeild. Sérstaklega þar sem mál hennar er enn í rannsókn og engin niðurstaða komin. Þær standa við ákvörðunina um að gefa Áslaugu orðið á fundinum.

„Við þá ákvörðun litum við til þess að ekki eitt einasta #MeToo-mál hefur verið leitt til lykta með sakfellingu fyrir dómstólum og óvíst að svo verði nokkurn tímann. Það þýðir ekki að rödd þeirra sem telja á sér brotið eigi ekki að fá að hljóma,“ kemur fram í yfirlýsingu frá aðstandendum Kvennafrís.

Áslaug Thelma Einarsdóttir.
Áslaug Thelma Einarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fram hef­ur komið var Áslaugu sagt upp störf­um hjá Orku nátt­úr­unn­ar, sem er dótt­ur­fyr­ir­tæki OR, um miðjan sept­em­ber. Hún hef­ur gagn­rýnt fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra ON, Bjarna Má Júlí­us­son, fyr­ir óviðeig­andi hegðun gagn­vart starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins. Í ræðu sinni í gær sagði hún að það hefði verið erfitt að fara til yf­ir­manna sinna til að til­kynna brot á eig­in vinnustað.

Hild­ur Þóris­dótt­ir, mannauðsstjóri Mann­vits, gerði alvarlegar athugasemdir við dagskrána á Arnarhóli í gær. Hún sagði það sorglegt að sjá konu fá gjallarhorn og gefið tækifæri til að ráðast á aðra konu.

Þarna vísa ég til ræðu Áslaug­ar Thelmu Ein­ars­dótt­ur sem kaus að beina spjót­um sín­um sér­stak­lega að starfs­manna­stjóra Orku­veit­unn­ar, sem einnig er kona,“ skrif­aði Hild­ur í færslu sem hef­ur verið birt á Face­book.

Aðstandendur Kvennafrís segja að boðað hafi verið til samstöðufundarins á Arnarhóli í nafni #MeToo-byltingarinnar og markmiðið hafi meðal annars verið að sýna þolendum stuðning í orði og verki. Þær viti að slík mál taki á alla hlutaðeigandi og úrlausn þeirra geti verið flókin og sár. Þeim þyki leiðinlegt að öðrum konum hafi fundist að sér vegið á samstöðufundi allra kvenna á Íslandi.

Við reyndum ekki að hafa áhrif á efnistök Áslaugar Thelmu, ekki frekar en efnistök annarra ræðukvenna á Arnarhóli í gær. Það er ekki okkar að segja konum sem vilja stíga fram og segja frá sínum upplifunum hvernig þær megi færa þær í orð. Við stöndum því við þá ákvörðun okkar að gefa Áslaugu orðið á fundinum,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert