Aðstandendur Kvennafrís vissu að ákvörðun þeirra um að gefa Áslaugu Thelmu Einarsdóttur orðið á samstöðufundi á Arnarhóli í gær yrði umdeild. Sérstaklega þar sem mál hennar er enn í rannsókn og engin niðurstaða komin. Þær standa við ákvörðunina um að gefa Áslaugu orðið á fundinum.
„Við þá ákvörðun litum við til þess að ekki eitt einasta #MeToo-mál hefur verið leitt til lykta með sakfellingu fyrir dómstólum og óvíst að svo verði nokkurn tímann. Það þýðir ekki að rödd þeirra sem telja á sér brotið eigi ekki að fá að hljóma,“ kemur fram í yfirlýsingu frá aðstandendum Kvennafrís.
Eins og fram hefur komið var Áslaugu sagt upp störfum hjá Orku náttúrunnar, sem er dótturfyrirtæki OR, um miðjan september. Hún hefur gagnrýnt fyrrverandi framkvæmdastjóra ON, Bjarna Má Júlíusson, fyrir óviðeigandi hegðun gagnvart starfsfólki fyrirtækisins. Í ræðu sinni í gær sagði hún að það hefði verið erfitt að fara til yfirmanna sinna til að tilkynna brot á eigin vinnustað.
Hildur Þórisdóttir, mannauðsstjóri Mannvits, gerði alvarlegar athugasemdir við dagskrána á Arnarhóli í gær. Hún sagði það sorglegt að sjá konu fá gjallarhorn og gefið tækifæri til að ráðast á aðra konu.
„Þarna vísa ég til ræðu Áslaugar Thelmu Einarsdóttur sem kaus að beina spjótum sínum sérstaklega að starfsmannastjóra Orkuveitunnar, sem einnig er kona,“ skrifaði Hildur í færslu sem hefur verið birt á Facebook.
Aðstandendur Kvennafrís segja að boðað hafi verið til samstöðufundarins á Arnarhóli í nafni #MeToo-byltingarinnar og markmiðið hafi meðal annars verið að sýna þolendum stuðning í orði og verki. Þær viti að slík mál taki á alla hlutaðeigandi og úrlausn þeirra geti verið flókin og sár. Þeim þyki leiðinlegt að öðrum konum hafi fundist að sér vegið á samstöðufundi allra kvenna á Íslandi.
„Við reyndum ekki að hafa áhrif á efnistök Áslaugar Thelmu, ekki frekar en efnistök annarra ræðukvenna á Arnarhóli í gær. Það er ekki okkar að segja konum sem vilja stíga fram og segja frá sínum upplifunum hvernig þær megi færa þær í orð. Við stöndum því við þá ákvörðun okkar að gefa Áslaugu orðið á fundinum,“ segir í yfirlýsingunni.