Alþingi hefur formlega tekið fyrsta græna skref Umhverfisstofnunar. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, tók við viðurkenningu fyrir hönd Alþingis vegna þess í dag. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags, afhenti Steingrími viðurkenninguna.
Markvisst hefur verið unnið að því að gera Alþingi að umhverfisvænum vinnustað undanfarin misseri, að því er segir í tilkynningu frá skrifstofu Alþingis.
Stórlega hefur dregið úr pappírsnotkun, prenturum hefur verið fækkað, rusl er flokkað á öllum starfsstöðvum, plastglös og einnota borðbúnaður eru ekki notuð, ræstiefni eru umhverfisvottuð og starfsmönnum er boðið upp á samgöngusamninga, svo fátt eitt sé nefnt.
Eftir að hafa tekið við viðurkenningunni lýsti forseti Alþingis því yfir að næsta skref yrði að hefja undirbúning að því að kolefnisjafna alla starfsemi Alþingis.