Nokkuð hefur dregið úr líkum á frekari hækkunum olíuverðs á næstu vikum og mánuðum. Skýringin er m.a. bætt birgðastaða og áhyggjur af hægari hagvexti. Þó ríkir enn töluverð óvissa á olíumörkuðum og ekki þurfi mikið til að þeir hækki aftur, ekki síst vegna heimseftirspurnar.
Þetta segir Brynjólfur Stefánsson, sérfræðingur í hrávörum hjá Íslandssjóðum, í Morgunblaðinu í dag. Hann telur lægra olíuverð jákvætt fyrir ferðaþjónustuna.
Verð á Brent-Norðursjávarolíu hefur undanfarinn mánuð lækkað úr 86 dölum í 76. Þegar verðið náði 86 dölum birtust fréttir af því að fjárfestar veðjuðu á að olíuverð færi í 100 dali í náinni framtíð. Síðan hefur markaðurinn tekið aðra stefnu.